144. löggjafarþing — 141. fundur,  1. júlí 2015.

athugun á hagkvæmni lestarsamgangna.

101. mál
[11:29]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil eins og margir aðrir fagna þessu máli. Ég tel þetta löngu tímabæra athugun á samgöngubót sem skiptir miklu máli fyrir alla landsmenn til þess að við getum búið hér við sjálfbærar samgöngur um langa framtíð. Þetta skiptir máli fyrir íbúa á Suðurnesjum, það er nú ekki lítið. Það er kalt svæði sem hefur verið í vörn atvinnulega séð árum og áratugum saman. Með því að tengja Suðurnesin með lestarsamgöngum við Reykjavík verða þau hluti af atvinnusvæði Reykjavíkur.

Ég skil vel að hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni þyki þetta fjári dýrar hugmyndir. Miklar samgöngubætur eru það gjarnan. Jarðgöng hlaupa á 10–20 milljörðum stykkið. Ég græt ekki þann pening ef hann hjálpar fólki að halda landinu í byggð, ef hann hjálpar fólki að búa þar sem það vill búa og ef sá peningur hjálpar fólki að lifa góðu lífi.

Ég vil taka undir orð hv. þm. Katrínar Júlíusdóttur sem lét sig dreyma um, væntanlega í fjarlægri framtíð, að lestir mundu tengja fleiri byggðakjarna, Selfoss, Borgarnes og jafnvel víðar. Þetta snýst allt um að tengja landshluta og að brjóta niður þann múr sem sumir sjá á milli höfuðborgar og landsbyggðar. Við erum á einu landi. Við erum fá og við höfum ekki efni á því að láta eins og við berumst á banaspjótum milli landsbyggðar og höfuðborgar.

Mér reiknast til þar sem ég stend hér á þriðja degi mínum í þessum sal að það sé kominn tími á að ég tjái mig aðeins um umræðuna eins og hefð er. Mig langar sérstaklega að benda á þetta mál sem dæmi um góð vinnubrögð þingsins. Ég heyrði í umræðunum hér á undan að einstaka þingmaður var eitthvað efins um málið en þá verður að horfa til þess að þetta mál er borið fram af þingmönnum fjögurra flokka, þar á meðal þingmönnum Framsóknarflokksins. Hér er stjórn og stjórnarandstaða samhent í því að bera fram mál um athugun á samgöngubót sem skiptir okkur öll verulegu máli hvort sem við búum í höfuðborginni eða úti á landi, hvort sem við erum framsóknarmenn eða vinstri græn og hvort sem við erum lifandi eða eftir okkar dag fyrir börnin okkar. Við erum að tala um sjálfbærar samgöngur til langrar framtíðar.