144. löggjafarþing — 141. fundur,  1. júlí 2015.

athugun á hagkvæmni lestarsamgangna.

101. mál
[11:39]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér er ekki vel við það að vera vænd af þingmönnum um að stunda skítkast. Ég taldi mig vera að ræða málið málefnalega og efnislega og hv. þingmaður sakar mig um skítkast og segir að það sé eitthvað sem ég stundi hér og hann sé vanur því frá þessum þingmanni. Ég vil að hv. þingmaður rökstyðji þetta með tilvitnunum og tilvísunum í orð mín. Það má vel vera að ég hafi oftúlkað ræðu hans áðan varðandi andstöðu hans við þetta mál, að hún snerist um ótta við það að Reykjavíkurflugvöllur yrði inni í myndinni og menn ætluðu sér að nýta ferðina og koma honum fyrir kattarnef, það má vel vera og biðst ég þá velvirðingar á því ef ég hef tengt það saman að ósekju. En að vera vænd um skítkast og að ég stundi það skal vera rökstutt með dæmum, undir öðru sit ég ekki.