144. löggjafarþing — 141. fundur,  1. júlí 2015.

athugun á hagkvæmni lestarsamgangna.

101. mál
[11:43]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég gæti alveg trúað því að þingmaðurinn hefði misskilið mig. Ég vil í fyrsta lagi segja eitt um stofnæðar. Það er alveg rétt að þær eru greiddar úr sameiginlegum sjóðum allra landsmanna en það eru líka fulltrúar allra landsmanna sem taka ákvörðun um að setja fjármagn í uppbyggingu þessara stofnæða, það er ekki bara gert á höfuðborgarsvæðinu, það er hringinn í kringum landið. Ég er að benda á og mundi gjarnan vilja heyra af hverju hv. þingmaður styður mig ekki í því að það eru ekki fulltrúar alls landsins sem ákveða örlög Reykjavíkurflugvallar. Því finnst mér óeðlilegt þegar sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu eða sveitarfélagið Reykjavík leggur höfuðáherslu á að það sé einkamál Reykvíkinga hvort þetta stóra samgöngumannvirki fari eða verði, en leggur svo á hinn kantinn til að allir landsmenn greiði fyrir uppbyggingu á almenningssamgöngukerfi sem ég get ekki betur séð en eigi heima hjá einstökum sveitarfélögum alveg eins og almenningssamgöngur eiga heima hjá einstökum sveitarfélögum hringinn í kringum landið. Það er þetta sem ég er að benda á.

Að sjálfsögðu er algjörlega ábyrgðarlaust að koma hingað, og það var það sem ég nefndi, og segja að það hljóti að vera einhver framtíðarsýn hjá 300 þúsund manna þjóð, sem mun væntanlega fjölga, að byggja járnbrautarlestir hringinn í kringum landið eða til helstu þéttbýlisstaða, væntanlega með aukajarðgöngum undir Hvalfjarðargöng. Mér finnst, svo að ég sé nú alveg hreinskilinn, að þegar menn nefna svona hugmyndir þá þurfi þeir líka að segja að þeir geri sér grein fyrir því að þetta kosti ekki bara tugi milljarða heldur hundruð milljarða og að þeir geti þá kannski líka fært einhver rök fyrir því hvernig þeir ætli að sækja tekjur, auka tekjur (Forseti hringir.) ríkissjóðs og standa straum af kostnaði, jafnvel þó að þetta yrði ekki (Forseti hringir.) í náinni framtíð.