144. löggjafarþing — 141. fundur,  1. júlí 2015.

athugun á hagkvæmni lestarsamgangna.

101. mál
[11:45]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst ábyrgðarlaust að ræða ekki þá tillögu sem hér er undir. Mér finnast ábyrgðarlaust að ræða það ekki að hér er verið að leggja til að fara í hagkvæmniathugun á kerfi sem snýst um almenningssamgöngur, sem snýst um það hvernig við getum dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum sem eru aðaluppspretta losunar gróðurhúsalofttegunda. Ég vísaði hér í metnaðarfull loftslagsmarkmið hæstv. umhverfisráðherra. Mér finnst að Alþingi eigi að vera að ræða þessi mál. Mér finnst það ekki vera einkamál sveitarfélaganna hvernig þau skipuleggja samgöngumál. Mér finnst þetta vera samstarfsverkefni. Það er það sem verið er að leggja til hér.

Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu eru mjög jákvæð gagnvart því að horfa á þetta sem samstarfsverkefni því að málið snýst einmitt um þann hluta samgöngukerfis höfuðborgarsvæðisins, hvort við ætlum að halda áfram að byggja upp stofnæðar með sama hætti og verið hefur eða hvort við ætlum að fara einhverja aðra leið. Til þess að koma til móts við þau markmið sem ríkisstjórnin setur sjálf, til að mynda í loftslagsmálum, tiltökum við umhverfisþætti og til að koma til móts við breyttar áherslur í skipulagi þar sem er verið að horfa á þéttari byggð og hver kostnaðurinn sé af þessu. Það er búið að fara ítarlega yfir það hér í umfjöllun um þetta mál í þingsal. Ég þekki ekki umfjöllun nefndarinnar. Hv. þingmaður leiðir starf hennar þannig að hann ber auðvitað ábyrgð á því hvernig hún hefur verið. (Gripið fram í.)

Það liggur algjörlega fyrir, herra forseti, að mjög margar borgir og borgarsvæði af okkar stærð eru að taka upp slík kerfi einmitt til þess að koma til móts við umhverfissjónarmið, skipulagssjónarmið og hagkvæmnissjónarmið. Þar má nefna Óðinsvé og Álaborg í Danmörku, Bergen í Noregi, Le Mans í Frakklandi, borgarsvæði sem eru af svipaðri stærð og það svæði sem hér um ræðir.

Ég átta mig hreinlega ekki á því hvernig nokkur getur verið á móti því að við rannsökum þennan kost í samstarfi ríkis og sveitarfélaga því að það er tillagan sem hér um ræðir. Hér er enginn að leggja til hundrað milljarða fjárfestingu, ekki nokkur maður. Hér er verið að leggja til að ríkið komi að þessari vinnu með sveitarfélögunum. Ég trúi því nú ekki fyrr en ég tek á því að einhver sé á móti því að slík athugun fari fram til þess einmitt að umræðan í þinginu geti orðið upplýstari.