144. löggjafarþing — 141. fundur,  1. júlí 2015.

almannatryggingar.

322. mál
[11:52]
Horfa

Frsm. meiri hluta  (Elsa Lára Arnardóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, með síðari breytingum (markmið, stjórnsýsla og almenn ákvæði), frá meiri hluta velferðarnefndar.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið til sín fjölda gesta. Jafnframt bárust umsagnir frá fjölda aðila er vörðuðu málið.

Með leyfi forseta, ætla ég í ræðu minni að fara yfir nefndarálit meiri hlutans.

Frumvarpið er liður í heildarendurskoðun laga um almannatryggingar, nr. 100/2007. Það er lagt fram samhliða frumvarpi til laga um slysatryggingar almannatrygginga og tekur mið af frumvarpi til laga um úrskurðarnefnd velferðarmála. Því er einkum ætlað að gera lög um almannatryggingar skýrari og aðgengilegri og lagfæra hnökra. Unnið er að tillögum um breytingar á efnisreglum laga um almannatryggingar í nefnd sem félags- og húsnæðismálaráðherra skipaði í nóvember 2013. Stefnt er að því að sú nefnd skili af sér niðurstöðum síðar í sumar.

Í 2. mgr. c-liðar 2. gr. frumvarpsins er tekið fram að við framkvæmd laganna og rekstur Tryggingastofnunar skuli þess gætt að fjármunir séu nýttir á sem hagkvæmastan hátt. Meiri hlutinn leggur til að ákvæðið verði fellt brott, enda sjálfgefið að nýta beri opinbera fjármuni með sem hagkvæmustum hætti og óþarfi að mæla sérstaklega fyrir um það í lögum um almannatryggingar.

Ég vík nú að kaflanum um staðsetningu Tryggingastofnunar. Margir umsagnaraðilar og gestir nefndarinnar gagnrýndu fyrirhugaða heimild ráðherra til að ákveða staðsetningu Tryggingastofnunar og þjónustustöðva hennar samkvæmt d-lið 2. gr. frumvarpsins og töldu æskilegra að hún væri ákveðin í lögum. Fyrir því voru meðal annars færð þau rök að með því móti mætti betur tryggja að ákvörðun um staðsetninguna byggðist á faglegum grunni og gott aðgengi að þjónustu Tryggingastofnunar.

Þess ber að geta að eftir að nefndarálit meiri hluta velferðarnefndar var lagt fram var eftirfarandi breytingartillaga gerð á frumvarpinu sem hér um ræðir, sem er að d-liður 2. gr. falli brott, sem er um staðsetningu Tryggingastofnunar og þjónustustöðva, þannig að ákvæðið verður því óbreytt frá og núgildandi lögum um almannatryggingar.

Samspil bóta lífeyristrygginga og slysatrygginga. Meiri hlutinn leggur til að bætt verði við tilvísunum til laga um slysatryggingar almannatrygginga í 3. gr. og a-lið 9. gr. frumvarpsins til samræmis við ábendingar Sjúkratrygginga Íslands. Af sama tilefni leggur meiri hlutinn til að síðasti hluti 4. efnismálsgreinar a-liðar 9. gr. frumvarpsins falli brott en við bætist ný efnismálsgrein um að hafi lífeyrisþegi þegar fengið greiddan lífeyri samkvæmt lögum um slysatryggingar almannatrygginga skuli taka tillit til þess við útreikning örorkulífeyris vegna almennrar örorku fyrir sama tímabil.

Fangelsisvist, gæsluvarðhald eða önnur dvöl á stofnun. Í 1. málslið 1. mgr. 56. gr. laga um almannatryggingar segir nú að sé bótaþegi dæmdur til fangelsisvistar eða á annan hátt úrskurðaður til dvalar á einhverri stofnun skuli falla niður allar bætur til hans eftir fjögurra mánaða samfellda fangelsisvist eða dvöl. Í a-lið 16. gr. frumvarpsins er ráðgert að mæla fyrir um að afpláni lífeyrisþegi refsingu í fangelsi, sæti gæsluvarðhaldi eða sé á annan hátt úrskurðaður til dvalar á stofnun skuli allar bætur til hans falla niður.

Lífeyri almannatrygginga er fyrst og fremst ætlað að mæta kostnaði við framfærslu þeirra sem lög um almannatryggingar taka til og hans þurfa. Því er eðlilegt að hann taki mið af því ef einstaklingar dveljast á stofnunum þar sem hið opinbera greiðir framfærslu þeirra að öllu eða nokkru leyti. Þó kann það að koma illa við lífeyrisþega ef greiðslur lífeyris falla brott strax og vist á stofnun hefst, enda kann það að gera þeim erfitt að mæta fjárhagslegum skuldbindingum sínum. Það á sérstaklega við þegar vistun hefst skyndilega og óvænt, svo sem oft á við í tilviki gæsluvarðhalds. Með því kann að vera óhæfilega harkalega gengið fram gegn einstaklingum sem teljast saklausir þar til sekt er sönnuð.

Meiri hlutinn leggur því til breytingu á a-lið 16. gr. frumvarpsins sem felur í sér að sæti einstaklingur gæsluvarðhaldi eða sé á annan hátt úrskurðaður til dvalar á stofnun, en afpláni ekki refsingu, haldist sá fjögurra mánaða frestur sem nú gildir. Taka ber tillit til bótagreiðslna á því tímabili verði lífeyrisþega, sem sætt hefur gæsluvarðhaldi, ákveðnar bætur til samræmis við ákvæði 4. málslið liðarins.

Meiri hlutinn leggur til að í 25. gr. frumvarpsins verði mælt fyrir um gildistöku 1. janúar 2016 í stað 1. janúar 2015 sem nú þegar er liðinn. Tryggingastofnun ríkisins hefur lagt áherslu á að ákvæði sem varði greiðslur og réttindaávinnslu taki gildi um áramót. Með gildistöku 1. janúar 2016 er einnig gætt samræmis við gildistöku laga um úrskurðarnefnd velferðarmála samkvæmt breytingartillögu nefndarinnar við frumvarp til laga um úrskurðarnefnd velferðarmála.

Samspil örorkugreiðslna almannatrygginga og lífeyrissjóða. Ákvæði samhljóða 24. gr. og b-lið 2. töluliðar og 3. töluliðar 26. gr. frumvarpsins voru lögfest með lögum um breytingu á lögum um almannatryggingar, lögum um félagslega aðstoð og lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 137/2014. Meiri hlutinn leggur því til að þau ákvæði frumvarpsins verði felld brott. Í 2. málslið 25. gr. frumvarpsins er fyrir mistök vísað til 23. gr. og b-liðar 2. töluliðar og 3. töluliðar 25. gr. í stað 24. gr. og b-liðar 2. töluliðar og 3. töluliðar 26. gr. Þar sem meiri hlutinn leggur til að 24. gr. og b-liður 2. töluliðar og 3. töluliðar 26. gr. falli brott leggur hann jafnframt til að 2. málsliður 25. gr. verði felldur brott.

Tillögur um efnislegar breytingar. Fyrir nefndinni komu fram margar tillögur um breytingar á frumvarpinu sem fælu í sér efnislegar breytingar á gildandi reglum um almannatryggingar umfram það sem frumvarpið gerir ráð fyrir. Meðal tillagna voru að fjallað yrði um starfsgetumat og framfærsluviðmið, að það tímabil sem einstaklingar haldi tryggingavernd þrátt fyrir nám erlendis, samanber e-lið 1. gr. frumvarpsins, yrði lengt, að frestur til að bera fram kæru um grundvöll, skilyrði eða fjárhæð bóta eða greiðslna samkvæmt lögunum, samanber 2. mgr. g-liðar 2. gr. frumvarpsins, yrði lengdur, að heimild til að greiða bætur til annarra en greiðsluþega eða framfæranda, samanber 11. gr. frumvarpsins, yrði numin brott, að upphaf bótaréttar, samanber 1. mgr. 13. gr. frumvarpsins, miðaðist almennt við umsóknardag, að bætur væru inntar af hendi eftir á frekar en fyrir fram, samanber 2. mgr. 13. gr. frumvarpsins, að heimild til milliríkjasamninga, samanber 20. gr. frumvarpsins, yrði breytt, og að Tryggingastofnun yrði heimilað að endurgreiða sveitarfélögum fjárhagsaðstoð sem þau hafa veitt einstaklingum sem biðu afgreiðslu umsóknar um greiðslur á grundvelli laga um almannatryggingar.

Nefndin hefur farið yfir fram komnar tillögur og telur gild rök fyrir mörgum þeirra. Meiri hlutinn telur þó æskilegra að afstaða verði tekin til þeirra við efnislega endurskoðun laga um almannatryggingar fremur en í fyrirliggjandi frumvarpi, sem snýr einkum að formi og framsetningu laganna. Meiri hlutinn gerir því ekki tillögur um breytingar á frumvarpinu með tilliti til þessara atriða.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali og ég ætla að fara stuttlega yfir það núna.

Breytingartillögurnar eru eftirfarandi:

1. 2. mgr. c-liðar 2. gr. (10. gr.) falli brott.

2. Við 3. gr. bætist nýr liður, svohljóðandi: Á eftir orðunum „samkvæmt lögum þessum“ í 3. og 4. mgr. kemur: lögum um slysatryggingar almannatrygginga.

3. A-liður 9. gr. orðist svo: 1.–4. mgr. orðast svo:

Enginn getur samtímis notið fleiri en einnar tegundar greiddra bóta samkvæmt lögum þessum og lögum um slysatryggingar almannatrygginga vegna sama atviks eða fyrir sama tímabil nema annað sé þar sérstaklega tekið fram. Þó getur lífeyrisþegi samhliða lífeyrisgreiðslum notið bóta og styrkja sem er ætlað að mæta útlögðum kostnaði vegna sama atviks.

Eigi greiðsluþegi rétt á fleiri tegundum bóta en einni samkvæmt lögum þessum eða lögum um slysatryggingar almannatrygginga sem ekki geta farið saman skal greiða honum hærri eða hæstu bæturnar.

Njóti einstaklingur bóta samkvæmt öðrum lögum fyrir sama tímabil og bætur eru greiddar samkvæmt þessum lögum skulu þær teljast til tekna við útreikning tekjutengdra bóta samkvæmt nánari ákvæðum laga þessara.

Hafi lífeyrisþegi þegar fengið greiddan lífeyri samkvæmt lögum um slysatryggingar almannatrygginga skal taka tillit til þess við útreikning örorkulífeyris vegna almennrar örorku fyrir sama tímabil.

4. 1. og 2. málsl. a-liðar 16. gr. orðist svo: Nú afplánar lífeyrisþegi refsingu í fangelsi eða kemur sér viljandi undan því að afplána refsingu og skulu þá falla niður allar bætur til hans, samanber 53. gr. Sæti lífeyrisþegi gæsluvarðhaldi eða sé hann á annan hátt úrskurðaður til dvalar á stofnun skulu falla niður allar bætur til hans eftir fjögurra mánaða samfellt gæsluvarðhald eða dvöl.

5. 24. gr. falli brott.

6. 25. gr. orðist svo: Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2016.

7. B-liður 2. tölul. og 3. tölul. 26. gr. falli brott.

Undir þessa breytingartillögu meiri hlutans og undir nefndarálit meiri hluta velferðarnefndar rita sú sem hér stendur, Elsa Lára Arnardóttir, Ásmundur Friðriksson, Brynjar Níelsson, Hanna Birna Kristjánsdóttir og Páll Jóhann Pálsson.