144. löggjafarþing — 141. fundur,  1. júlí 2015.

almannatryggingar.

322. mál
[12:04]
Horfa

Frsm. minni hluta velfn. (Andrés Ingi Jónsson) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti minni hluta velferðarnefndar. Minni hluti nefndarinnar er samþykkur meginmarkmiði frumvarpsins um að gera lög um almannatryggingar skýrari og aðgengilegri og lagfæra hnökra en leggst gegn efnisbreytingum sem lagðar eru til í frumvarpinu.

Þegar nefndarálitið var ritað voru það tvær athugasemdir sem minni hlutinn gerði en frá þeim tíma hefur verið lagt til að tillaga um að ráðherra hafi sjálfsvald um staðsetningu Tryggingastofnunar falli niður, þannig að þær athugasemdir í nefndaráliti minni hlutans hleyp ég yfir.

Eftir stendur að í a-lið 16. gr. frumvarpsins er lagt til að bætur til lífeyrisþega sem afpláni refsingu í fangelsi, sæti gæsluvarðhaldi eða séu á annan hátt úrskurðaðir til dvalar á stofnun, falli þegar í stað niður fremur en eftir fjögra mánaða dvöl, líkt og nú segir í 1. málslið 1. mgr. 56. gr. laga um almannatryggingar

Minni hlutinn telur það skjóta skökku við að helsta efnislega breyting á réttindum fólks í frumvarpinu beinist að því að skerða réttindi hóps sem stendur höllum fæti. Einkum er það óeðlilegt í tilviki þeirra sem sæta gæsluvarðhaldi, enda teljast þeir saklausir þar til sekt þeirra er sönnuð.

Standi til að skerða réttindi örorkulífeyrisþega sem sæta gæsluvarðhaldi eða eru dæmdir til fangelsisvistar þarf að færa betri rök fyrir því en gert er í greinargerð með frumvarpinu og leggja til grundvallar yfirlit yfir réttindi fanga til þóknunar fyrir vinnu eða dagpeninga. Minni hlutinn óskaði eftir ítarlegri upplýsingum um þennan rétt fanga en telur sig ekki hafa fengið nægilega skýra mynd sem réttlæti skerðingu réttinda þeirra til örorkulífeyrisgreiðslna fyrstu fjóra mánuði fangelsisvistar. Réttara væri að vísa þessu ákvæði til nefndar sem nú vinnur að heildarendurskoðun á almannatryggingalögum.

Þetta síðara ákvæði sem minni hlutinn lagðist gegn eða síðari breyting um réttindi fanga hefur tekið nokkrum breytingum í meðförum meiri hlutans, eins og gerð var grein fyrir, en minni hlutinn telur enn um að ræða veigamikla efnisbreytingu gagnvart hópi sem stendur höllum fæti í samfélaginu og ekki í samræmi við meginmarkmið frumvarpsins. Minni hlutinn mun því ekki styðja frumvarpið.

Undir þetta rita hv. þingmenn Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, formaður og framsögumaður, Guðbjartur Hannesson, Páll Valur Björnsson og Steinunn Þóra Árnadóttir og sá sem hér stendur gerir það sem varamaður Steinunnar Þóru.