144. löggjafarþing — 141. fundur,  1. júlí 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[12:08]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Frosti Sigurjónsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti og breytingartillögu efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002. Nefndarálitið má finna á þskj. 1509 og breytingartillöguna á þskj. 1510.

Ég mun nú reifa aðalatriði nefndarálitsins í mjög stuttu máli.

Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ákvæðum laga um fjármálafyrirtæki hvað varðar starfsleyfi, eftirlitskerfi með áhættu, virka eignarhluti, stjórn og starfsmenn fjármálafyrirtækja, innri stjórnarhætti, starfskjarastefnu fjármálafyrirtækja og breytileg starfskjör starfsmanna fjármálafyrirtækja, stórar áhættuskuldbindingar, eiginfjárauka, heimild fyrir ráðherra til að taka upp reglugerð (ESB) nr. 575/2013 í íslenskan rétt, heimild fyrir ráðherra og Fjármálaeftirlitið til þess að taka upp tæknilega framkvæmdarstaðla og tæknilega eftirlitsstaðla Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar í íslenskan rétt og breytingar á viðurlagakafla laganna til samræmis við framangreindar breytingar.

Nefndinni barst 21 umsögn um málið. Fram komu fjölmargar efnislegar athugasemdir sem nefndin fór ítarlega yfir á fjölda funda með fulltrúum umsagnaraðila og ráðuneytis.

Fram komu ýmis sjónarmið við vinnslu málsins hjá nefndinni, m.a. ábendingar um að eðlilegt væri að gera ríkari kröfur til stórra fjármálafyrirtækja hvað varðar áhættutöku, takmarkanir á breytilegum starfskjörum þeirra og gildi eiginfjárauka vegna kerfislegs mikilvægis þessara fyrirtækja og þess tjóns sem samfélagið getur orðið fyrir ef slík fyrirtæki lenda í erfiðleikum. Fram kom að greiðslumiðlun í landinu er beinlínis háð greiðsluhæfi innlánsstofnana og því sé tilefni til að gera strangar kröfur til innlánsstofnana hvað varðar greiðslu breytilegra starfskjara. Einnig komu fram efasemdir um að rétt væri að leyfa kaupaukagreiðslur til starfsfólks eftirlitseininga fjármálafyrirtækja.

Í ljósi umsagna og vinnu nefndarinnar eru lagðar til allnokkrar breytingar á frumvarpinu, eins og nánar er rakið í nefndaráliti. Fyrst ber að nefna að sá hluti frumvarpsins sem varðar starfskjarastefnu og breytileg starfskjör er talin þarfnast breytinga og umsagnir um frumvarpið höfðu að geyma mjög ólíkar skoðanir á reglum um breytileg starfskjör. Innan nefndarinnar voru einnig ólík sjónarmið um mögulegar útfærslur en þó samhljómur um að reglur um breytileg starfskjör mættu ekki ýta undir áhættutöku starfsmanna í fjármálafyrirtækjum og sérstaklega ekki í tilliti kerfislega mikilvægra fyrirtækja eða innlánsstofnana.

Nefndin telur því rétt að þær greinar sem fjalla um starfskjarastefnu og breytileg starfskjör verði ekki afgreiddar að þessu sinni en leggur þess í stað til að lagastoð gildandi reglna Fjármálaeftirlitsins um kaupaukakerfi verði styrkt. Flestar aðrar breytingar sem nefndin leggur til taka mið af athugasemdum sem lúta að skýrleika orðalags, lagatæknilegum atriðum og samræmi við efni ESB-tilskipunar nr. 36/2013.

Þó má nefna að í 3. mgr. 19. gr. frumvarpsins er áskilnaður um að framkvæmdastjórar og stjórnarmenn skuli hafa lokið háskólaprófi sem nýtist í starfi. Nefndin telur hins vegar að fólk geti búið yfir gagnlegri þekkingu, menntun og reynslu sem getur nýst í stjórnun fjármálafyrirtækis þó að það hafi ekki lokið háskólanámi. Nefndin bendir á að Fjármálaeftirlitið getur eftir sem áður á hverjum tíma tekið hæfi framkvæmdastjóra og stjórnarmanna til sérstakrar skoðunar. Nefndin leggur því til að fallið verði frá skilyrði frumvarpsins um að framkvæmdastjórar og stjórnarmenn skuli hafa lokið háskólaprófi. Með þeim hætti er kostur á fjölbreyttari samsetningu á stjórnum fjármálafyrirtækja án þess að slakað sé á kröfum um hæfi stjórnarmanna.

Frumvarpið leggur til nýjar reglur um fjóra nýja eiginfjárauka sem bætast við 8% eiginfjárgrunn laganna, og kröfu Fjármálaeftirlitsins um hærri eiginfjárgrunn einstakra fjármálafyrirtækja. Eiginfjáraukunum er ætlað að minnka kerfisáhættu og styðja við fjármálastöðugleika en slík tæki hafa fengið aukið mikilvægi á alþjóðavísu eftir áföll á fjármálamörkuðum undanfarin ár.

Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að ráðlegt sé að innleiða eiginfjáraukana fyrr en gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Bent var á að eiginfjáraukarnir hafi nú þegar verið innleiddir á hinum Norðurlöndunum. Þá sé eiginfjárstaða stóru bankanna sterk núna og ráðlegt að viðhalda þeirri stöðu í ljósi fyrirhugaðs afnáms fjármagnshafta. Nefndin fellst á umrædd sjónarmið og gerir tillögu um að gildistöku eiginfjáraukanna verði flýtt.

Nefndin leggur um leið áherslu á að við innleiðingu eiginfjáraukanna verði þess gætt að gerður verði greinarmunur á stórum kerfislægum mikilvægum fyrirtækjum og smærri fjármálafyrirtækjum, þannig að eiginfjáraukar íþyngi ekki smærri fjármálafyrirtækjum meira en nauðsyn krefur.

Virðulegi forseti. Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð er tillaga um í þingskjali 1510.

Hv. þm. Birgitta Jónsdóttir, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, styður afgreiðslu málsins.

Undir álitið skrifa hv. þingmenn Frosti Sigurjónsson, formaður og framsögumaður, Árni Páll Árnason, Brynjar Níelsson, Guðmundur Steingrímsson, Líneik Anna Sævarsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Unnur Brá Konráðsdóttir, Vilhjálmur Bjarnason og Willum Þór Þórsson.