144. löggjafarþing — 141. fundur,  1. júlí 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[12:44]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Hér er verið að greiða atkvæði um ráðstafanir afla í svokallaðan litla pott, félagslegar, byggðalegar og atvinnulegar ráðstafanir aflaheimilda. Við vinstri græn leggjum til að þeirri aflaaukningu sem er til ráðstöfunar á næsta fiskveiðiári, það eru 3.000 tonn sem renna í þennan hluta veiðiheimilda, verði ráðstafað þannig að bætt verði við 1.000 tonnum í strandveiðar og auk þess bætt í aflamark Byggðastofnunar svo það verði 5.400 tonn og aukist um tæp 2.000 tonn. Við teljum mjög brýnt að auka þessa tvo þætti sem skilað hafa hinum dreifðu sjávarbyggðum mest varðandi styrkingu byggða. Við leggjum líka til að þessar ráðstafanir séu eingöngu hugsaðar til eins árs þar sem verið er að vinna að skoðun á þessum hlutum, og að við endurskoðum þær fyrir þarnæsta fiskveiðiár.