144. löggjafarþing — 141. fundur,  1. júlí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[12:49]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Í þessu máli birtast tvö grundvallaratriði í samtímastjórnmálum, annars vegar meðferð auðlinda, hvernig við umgöngumst náttúruna, lífríkið, og hvernig við nýtum þessa sömu náttúru og lífríkið, og hins vegar hvernig uppbyggingu atvinnulífs við viljum sjá.

Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði viljum sjá fjölbreytta uppbyggingu atvinnulífs sem byggir á fjölbreyttum stoðum og fara mjög varlega í umgengni okkar við auðlindir þessa lands, því að við lítum ekki á það sem einkamál okkar sem hér lifum hvernig við nýtum til að mynda vatnsaflið í landinu. Nú þegar höfum við virkjað helming alls vatnsafls. Okkur finnst mikilvægt að hafa hagsmuni komandi kynslóða í huga þegar við tökum slíkar ákvarðanir. Í þessu máli viljum við að Þjórsá njóti vafans og vega þar þyngst þau málefnalegu rök sem reifuð hafa verið í þessari umræðu um villta laxinn, sem er auðvitað auðlind sem ekki verður metin til fjár. (Forseti hringir.) Við munum þess vegna leggjast gegn þessari tillögu.