144. löggjafarþing — 141. fundur,  1. júlí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[12:55]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Þetta mál hefur allt verið hið undarlegasta frá því að það kom hingað inn á þing með tillögu ráðherra um Hvammsvirkjun. Atvinnuveganefnd hefur leikið marga millileiki í óþökk náttúruverndarsinna í landinu.

Ég tel að ekki sé hægt að máta ákveðnar stóriðjuframkvæmdir við vatnsföllin okkar. Það er bara ekki í boði. Það er gamaldags stóriðjuhugsun sem við Íslendingar erum sem betur fer að hverfa frá. (Gripið fram í.)

Ég tel að við eigum að virða alla ferla. Ég er fegin því að þetta mál er komið á þann stað sem það er, en ég er líka mjög gagnrýnin á að hæstv. ráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson hafi tekið svona fáa kosti og í raun þröngvað verkefnisstjórn til að leggja til einn sem hefði betur verið tekinn inn í stærra mengi til skoðunar. Það er mín skoðun (Forseti hringir.) að þessi kostur eigi að fara í heildstæðari skoðun þar sem hann fengi faglegri flokkun.