144. löggjafarþing — 141. fundur,  1. júlí 2015.

veiðigjöld.

692. mál
[13:06]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við erum að greiða atkvæði um veiðigjöld eða það frumvarp sem liggur hér fyrir. Verið er að handstýra enn eina ferðina álagningu á veiðigjöldum frá því að þessi meiri hluti tók við. Sú aðferðafræði virkar greinilega ekki eins og menn töldu og endurspeglar ekki afkomu fyrirtækjanna, enda liggja þær upplýsingar ekki fyrir sem leitað er eftir hjá fyrirtækjum varðandi skattskýrslur, en beðið er eftir þeim.

Þessi álagning er miklu líkari skattlagningu og veiðigjöldin halda áfram að lækka. Þetta er mjög ómarkvisst og fyrirtæki í bolfisks- og uppsjávargeiranum, stórfyrirtækin, græða á tá og fingri og sýna með afkomu sinni og greiðslu arðs að þau eru vel hæf til að greiða hærri veiðigjöld en þarna kemur fram. En meiri hlutinn heldur áfram að handstýra þessu þótt sá mikli hagnaður sé þarna á ferðinni. (Forseti hringir.) Ég tel og við vinstri græn að meiri hlutinn beri ábyrgð á veiðigjöldunum, það þarf að setja á veiðigjöld en við erum algjörlega ósammála þessari útfærslu þeirra.