144. löggjafarþing — 141. fundur,  1. júlí 2015.

veiðigjöld.

692. mál
[13:09]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er rétt að sjávarútvegur blómstrar um allt land og fjárfesting fer fram sem aldrei fyrr. Hringinn í kringum landið, þar sem 80% af sjávarútveginum eru utan höfuðborgarsvæðisins, gengur mjög vel. Það er vegna þess að núverandi ríkisstjórn segir að eðlilegt sé að menn greiði eðlilegt gjald fyrir aðgang að auðlind þjóðarinnar.

Á þessu kjörtímabili eru auðlindagjöld, veiðigjöld, kostnaður fyrirtækjanna við að sækja í auðlind sem þjóðin á, hærri en þau hafa nokkurn tíma verið. Þegar þetta kjörtímabil verður búið verða þau þau hæstu á einu kjörtímabili, hærri en þau hafa nokkurn tíma verið. Og þegar menn kom upp, sem sátu hér í fjögur ár og reyndu að smíða auðlindagjald sem átti að taka allt að 27–28 milljarða árið 2016 eða 2017 af þessari auðlind og leggja hana í rúst, þegar þeir koma (Forseti hringir.) hér fram og halda því fram að við séum eitthvað að hafa af þjóðinni þegar hún er öll saman að byggjast upp, hringinn (Forseti hringir.) í kringum landið, þá ættu þeir að hugsa hvað þeir voru að gera þá og bera það saman við það sem hefur verið gert núna.