144. löggjafarþing — 141. fundur,  1. júlí 2015.

almenn hegningarlög.

475. mál
[13:24]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér er lagt til að afnumin verði ein vitlausasta grein sem finnst í íslenskum lagabókstaf að mínu mati og margra annarra. Ég vil vekja athygli á því að hér er ekki verið að afnema ákvæði sem varðar hatursáróður. Ákvæði almennra hegningarlaga sem varðar hatursáróður er 233. gr. a. Hér er ekki hróflað við því. Hér er um að ræða 125. gr. almennra hegningarlaga, sem er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Hver, sem opinberlega dregur dár að eða smánar trúarkenningar eða guðsdýrkun löglegs trúarbragðafélags, sem er hér á landi, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 3 mánuðum. Mál skal ekki höfða, nema að fyrirlagi saksóknara.“

Mér finnst mikilvægt að halda því til haga að hér er ekki verið að afnema bann við neinu sem varðar réttindi fólks. Þetta ákvæði hefur einungis verið notað og er einungis hægt að nota gegn léttu glensi, sem já, er bannað samkvæmt núgildandi löggjöf. Það er fráleitt, en ég vildi bara halda þessu til haga þannig að enginn misskilningur sé á ferðinni.