144. löggjafarþing — 141. fundur,  1. júlí 2015.

plastpokanotkun.

166. mál
[13:37]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að þetta mál sé nú að afgreiðast í gegnum þingið. Hv. þm. Margrét Gauja Magnúsdóttir, varaþingmaður Samfylkingarinnar, lagði þetta mál fram á þingi í fyrra, þ.e. 2013–2014, og nú er það að verða að veruleika undir forustu hv. þm. Oddnýjar G. Harðardóttur. Þetta er stórmerkilegt mál og mikilvægt til að draga úr plastpokanotkun í landinu, en plastpokar í umhverfi okkar hafa gríðarleg áhrif á náttúruna og dýralíf. Það skiptir miklu máli að við göngum samhent og ákveðin til verks við það að draga úr plastpokanotkun. Þessi tillaga rímar vel við hugmyndir og vinnu sem hefur átt sér stað innan Umhverfisstofnunar og þessi tillaga ásamt þeirri vinnu getur orðið að öflugum aðgerðum sem við erum að leggja grunninn að í dag.