144. löggjafarþing — 141. fundur,  1. júlí 2015.

athugun á hagkvæmni lestarsamgangna.

101. mál
[13:40]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við greiðum hér atkvæði um að ráðist verði í hagkvæmniathugun á lestarsamgöngum innan höfuðborgarsvæðisins og milli Reykjavíkur og Keflavíkur. Mér er kunnugt um að það eru skiptar skoðanir á þessu máli en ég hef líka orðið vör við að það nýtur stuðnings fulltrúa úr öllum flokkum og er í góðum takti við nýtt svæðisskipulag sem öll sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu hafa nú sameinast um, að þessi valkostur verði kannaður með raunhæfum hætti. Mér finnst mjög mikilvægt að innanríkisráðuneytið og ríki komi að þeirri vinnu og taki virkan þátt í henni, því að hér gæti líka verið um mikilvægt innlegg að ræða, ef kosturinn er metinn hagkvæmur, til þess að draga úr óæskilegum umhverfisáhrifum af samgöngum, sem hlýtur að vera markmið okkar, ekki síst eftir að hæstv. umhverfisráðherra kynnti metnaðarfull loftslagsmarkmið í gær. Ég vonast því að sjálfsögðu til þess að sem flestir þingmenn ljái þessu máli atkvæði sitt.