144. löggjafarþing — 141. fundur,  1. júlí 2015.

athugun á hagkvæmni lestarsamgangna.

101. mál
[13:55]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég hef í allri þessari umræðu bent á að það eru fulltrúar allrar þjóðarinnar sem taka ákvarðanir um stofnæðar og fjölmörg samgöngumannvirki. Ég hef nú reyndar viljað ganga aðeins lengra og bæta við Reykjavíkurflugvelli. Ég verð þó að segja að í allri þessari umræðu var ég ekki að ræða um Reykjavíkurflugvöll. Hv. þm. Katrín Júlíusdóttir hélt fram svipuðum hlutum og hv. þm. Svandís Svavarsdóttir heldur fram núna. Hún baðst afsökunar á því og ég krefst þess að hv. þingmaður geri það líka, vegna þess að hún hefur í engu hlustað á þær umræður sem fóru fram hér áðan og það þykir mér miður.

Að sjálfsögðu kemur Vegagerðin að þeim málum sem heyra undir stofnæðar og annað, enda er það þannig. Það sem ég hef bara bent á og stend við er að ef menn ætla að fara í það að greiða fyrir alls konar hagkvæmniathuganir, og eru þær nú allnokkrar sem sveitarfélögin hafa farið í (Forseti hringir.) og kostað mikið, þá erum við að opna hér á fordæmi sem mjög erfitt getur verið að snúa við.