144. löggjafarþing — 141. fundur,  1. júlí 2015.

athugun á hagkvæmni lestarsamgangna.

101. mál
[14:00]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegur forseti. Ég vil í tilefni af ummælum hér um fyrirhyggju og að verið sé að leggja til að landið verði kannað áður en farið verði í frekari framkvæmdir, þá les ég það í blöðum, í frétt í fyrradag, að svæðisskipulagsstjóri höfuðborgarsvæðisins staðfesti nýja breytingu á nýju skipulagi sem hefur verið staðfest af skipulagsyfirvöldum þar sem gert er ráð fyrir sporvagni, léttlest, eins og það er kallað, eða hraðavagnakerfi. Ég fæ ekki betur séð en að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu, þar á meðal Reykjavík, séu nú þegar búin að ákveða að leggja þessa teina, búið sé að gera það nú þegar án þess að þetta mál hafi verið skoðað ofan í kjölinn.

Ég verð að segja að mér finnst þráhyggja vinstri manna á höfuðborgarsvæðinu fyrir sporvögnum hafa náð ákveðnum nýjum hæðum með þessu máli og með því að það var gert að sérstöku máli í samkomulagi um þinglok, þetta mál, skoðun á sporvögnum. (Gripið fram í.) Í því ljósi greiði ég ekki atkvæði með málinu en kýs þá að greiða ekki atkvæði gegn því, (Forseti hringir.) eins og ég hefði alla jafna gert.