144. löggjafarþing — 141. fundur,  1. júlí 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[14:14]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Í þessu frumvarpi stöndum við að því að innleiða nú þegar ýmsar efnisreglur sem fjármálafyrirtæki munu þurfa að innleiða hér á næstu árum vegna nýrra reglna um fjármálamarkaðinn sem stafa af hinu Evrópska efnahagssvæði. Ég legg á það þunga áherslu að í samþykkt þessa af okkar hálfu felst ekki neinn ádráttur um að það fyrirkomulag sem rætt hefur verið af hálfu fjármálaráðherra við Evrópusambandið og önnur EFTA-ríki um eftirlit á fjármálamarkaði njóti okkar samþykkis eða þá að við teljum það standast stjórnarskrá Íslands. Það fyrirkomulag á eftir að koma til sjálfstæðrar ákvörðunar fyrir Alþingi, væntanlega á næsta vetri, en við samþykkjum þessar efnisreglur.

Það er síðan er sérstakt ánægjuefni að við náðum saman um það í nefndinni að fella niður hugmyndir hæstv. fjármálaráðherra um að rýmka frekar heimildir fjármálafyrirtækja til að greiða bónusa og koma þess í stað með breytingartillögu sem styður við núverandi hömlur sem Fjármálaeftirlitið setur við árangurstengdum launagreiðslum í fjármálakerfinu. Þetta er mjög mikilvægur árangur og ég vona að stjórnarmeirihlutinn fari ekki að koma hér aftur í haust með (Forseti hringir.) nýja tilraun til þess að auka árangurstengdar greiðslur og bónusa í bönkum.