144. löggjafarþing — 141. fundur,  1. júlí 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[14:21]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Þetta mál er bara virkilega slæmt. Það eykur völd ráðherra á sama tíma og það minnkar aðhald og eftirlit með því að þeir fari vel með það vald sem þeim er falið. Það er bara mjög slæm stjórnsýsla. Það sem á að gera þarna er að leyfa ráðherrunum að ákveða einir og svo er einhverju bætt inn; ókei, það þarf að gefa þinginu skýrslu, gott og vel. Að sjálfsögðu er það betrumbót, en betrumbót frá ofboðslega vondu máli gerir það ekki að góðu máli.

Eftir stendur að óháðir aðilar, sem eiga að meta það hvort ráðherrar misfari með það vald sem þeir fara með í umboði þjóðarinnar, eru ekki lengur til staðar, óháð siðanefnd er ekki lengur til staðar. Siðanefnd, sem átti að vera í alls konar hlutverki eins og að sinna upplýsingaöflun, fræðirannsóknum, sjá til þess að brugðist væri með samhæfðum hætti við ábendingum, sinna samstarfi við félagasamtök og stofnanir erlendis gegn spillingu í opinbera geiranum, skila árlegri skýrslu og tillögu til stjórnvalda um hvernig draga eigi úr hættunni á spillingu og vanda betur til verka — þetta er farið. Þetta er vont mál, hæstv. forseti og hæstv. forsætisráðherra.