144. löggjafarþing — 141. fundur,  1. júlí 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[14:22]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að þetta mál er komið hér fram og hlýtur afgreiðslu, því að það verður að styrkja stoðirnar undir valdheimildir ráðherra þegar taka á ákvörðun um að flytja stofnanir. Mér finnst umræðan í málinu þennan þingvetur hafa verið Reykjavíkurmiðuð, Stór-Reykjavíkurmiðuð, og ákveðnir þingmenn hafa staðið vörð um það að ekki megi hreyfa við neinni stofnun héðan af Stór-Reykjavíkursvæðinu út á land.

Umræðan breyttist aðeins þegar ég tók dæmi um að þetta gilti líka um stofnanir úti á landi sem ætti að flytja til höfuðborgarsvæðisins, þá fannst mér andrúmsloftið gagnvart þessu frumvarpi batna aðeins. Ég styð alveg þá breytingartillögu sem er komin hér fram en raunverulega er algjör óþarfi að vera að taka þessa skýrslugjöf fyrir þingið því að vantraustið á stjórnmálin má ekki (Forseti hringir.) bitna á því faglega mati sem hver ráðherra hefur við það að flytja stofnun, hvort sem er utan af landi á höfuðborgarsvæðið eða öfugt.