144. löggjafarþing — 143. fundur,  1. júlí 2015.

almennar stjórnmálaumræður.

[20:17]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Forseti. Góðir Íslendingar. Svo óvenjulega háttar til að eldhúsdagsumræður að þessu sinni eru í byrjun júlí og hafa aldrei í sögunni farið fram svo seint. Þingið hefur nánast rekið á reiðanum mánuðum saman og stjórnarmeirihlutinn á löngum köflum forustulaus. Forsætisráðherra er á sífelldum flótta frá samskiptum við þingið og samskiptum við þjóðina, fjöldamörg dæmi eru um mál þar sem hann hleypur héðan út eða svarar málefnalegri gagnrýni með skætingi, síðast nú í byrjun vikunnar í umræðum um samninga við kröfuhafa.

Meðan sundrung og óeining hafa einkennt störf ríkisstjórnarinnar hefur stjórnarandstöðunni tekist að standa saman í baráttunni fyrir betra samfélagi. Við í VG höfum lagt áherslu á að skapa forsendur fyrir þeirri samstöðu í fjölmörgum málum. Sundrung og óeining í okkar röðum var ekki til heilla á síðasta kjörtímabili og við vinstri græn höfum lært mikið af þeirri reynslu. Okkur hefur tekist að skapa samstöðu innan okkar eigin raða og ekki síður í stjórnarandstöðunni allri. Niðurstaðan er skýr árangur, ýmis óþurftarmál sem ríkisstjórnin ætlaði að þvinga í gegnum þingið hafa verið stöðvuð og ber þar hæst fordæmalausra breytingartillögu við rammaáætlun þó að dæmin séu miklu fleiri. Þetta tókst af því að við stóðum saman.

En stjórnarandstaðan hefur ekki bara verið samstæð í því að veita andspyrnu, hún hefur líka staðið saman að tillöguflutningi og sýnt með því frumkvæði að mikilvægum breytingum í átt til jafnréttis og lýðræðis. Stjórnarandstaðan stóð saman að breytingum á fjárlagafrumvarpinu með félagslegum áherslum og lagði líka fram tillögu um að setja Evrópusambandsmálin í lýðræðisfarveg. Öll höfum við talað fyrir auknu lýðræði, gagnsæi í jöfnuði, kvenfrelsi og umhverfissjónarmiðum þótt einhver áherslumunur sé á milli flokka.

Í meiri hlutanum í Reykjavík er þetta orðað svona í samstarfssáttmála VG, Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar og Pírata, með leyfi forseta:

„Með hreinskilni og heiðarleika að leiðarljósi ætlum við að læra hvert af öðru og mynda heild sem er auðugri en summa okkar samanlögð.“

Þetta finnst mér gott leiðarljós, og leiðarljós til að vinna með áfram. Ríkisstjórnin aftur á móti hefur verið verkstjórnarlítil og ekki ráðið við að koma málum áfram. Þar er engin yfirsýn, ekki heildarsýn heldur er oft hver ráðherra settur í þá stöðu að berjast fyrir sínum málum og jafnvel eru dæmi um mál þar sem úthald ráðherrans til þess er ekki einu sinni fyrir hendi. Greinilegt er, og það hefur komið í ljós í vetur, að lítil samstaða er í stjórnarliðinu. Það er ágreiningur á milli stjórnarflokka, þar má nefna bankabónusa og Bankasýslu ríkisins, áherslur við stjórn fiskveiða, húsnæðismál o.fl. Stjórnarflokkarnir hafa ekki einu sinni getað komið sér saman um það hvernig eigi að fagna aldarafmæli íslenska fullveldisins og situr tillaga þar að lútandi föst í þingflokki Sjálfstæðisflokksins.

En við höfum líka verið ábyrg stjórnarandstaða, andstaða sem hefur sýnt því skilning þegar þörf hefur verið á því að kalla til þingfunda á óvenjulegum tímum eða mæla fyrir stórum málum eins og þeim sem nú eru í efnahags- og viðskiptanefnd og fjalla um samninga við kröfuhafa. Þannig erum við ólík þeirri stjórnarandstöðu sem var hér á síðasta kjörtímabili og setti sig á móti stórum málum og smáum, stundum sama hver þau voru.

Næsta skref okkar í VG er að halda áfram að leggja okkar lóð á þær vogarskálar að skapa samstöðu um nýja stjórnarstefnu byggða á heilindum, jafnrétti og lýðræði. Það þurfum við að gera með því að stöðva ofsagróða örfárra útgerða og flytja þá fjármuni til fólksins í landinu. Það gerum við með því að byggja landspítala sem við getum öll verið stolt af, með því að efla og styðja öll skólastig í stað þess að grafa undan menntakerfinu, reisa því skorður og ýta undir sundrungu. Sem dæmi má nefna að loka framhaldsskólunum fyrir 25 ára og eldri, þröngva ólíkum skólum í sama mót og sameina þá með valdboði. Það gerum við með því að skapa samstöðu um breytingar á stjórnarskrá, breytingar sem hefja lýðræðið til vegs, færa vald til fólksins og fá bæði náttúru og auðlindum veglegan sess. Umhverfis- og náttúruverndarmál eiga að vera í forgrunni á ný og kynjajafnrétti bæði í orði og á borði.

Við þurfum að hemja þensluna og nýta efnahagsbatann öllum til heilla, koma til móts við þá hópa sem höllustum fæti standa og útrýma fátækt á Íslandi. Hún á ekki að viðgangast.

Lýðræðið snýst ekki bara um já eða nei, einfaldan aðgang að ákvarðanatöku eða bara um kosningar eða atkvæðagreiðslur í sveitarfélögum eða hjá þjóðinni allri. Lýðræðið snýst um að hafa rödd allt árið um kring og leiðir til að koma skoðunum og sjónarmiðum á framfæri, vettvang fyrir opna og lifandi umræðu. Lýðræðið varðar öll svið mannlífsins og býr yfir mörgum víddum. Í lýðræðissamfélagi þarf ekki bara kosningarrétt og tíðar atkvæðagreiðslur heldur líka óhindrað aðgengi að hvers konar menntun, öfluga fjölmiðla í almannaþágu og jöfn tækifæri allra þjóðfélagshópa til þátttöku. Allt eru þetta sígild baráttumál vinstri manna og félagshyggjufólks um allan heim. Fólk þarf greiðan aðgang að upplýsingum, góða menntun, fjölmiðla sem gagnrýna valdhafana, varpa skýru ljósi á peningaöflin og endurspegla fjölbreytt mannlíf. Það þarf að ryðja hindrunum úr vegi um samfélagið allt. Aðgengi er forsenda þátttöku og þátttaka er forsenda lýðræðis. Við erum ekki bara að tala um aðgengi að byggingum eða almannarými heldur líka að samtölum, aðgengi að umræðu, aðgengi að þeim vettvangi þar sem ráðum er ráðið, í valdastofnunum, á vinnustöðum, í félagasamtökum, á heimilum og í skólum. Stundum þar túlkun, stundum þarf textun, stundum þarf bætta hljóðvist, stundum þarf sérstakt tillit til fjölbreyttra þjóðfélagshópa. Lýðræðið má nefnilega ekki bara vera fyrir suma, það verður að vera fyrir alla. Þannig ber okkur að skipuleggja samfélagið og ryðja brautir eins og nokkurs er kostur.

Góðir landsmenn. Nú er kjörtímabilið hálfnað og þá fer að styttast í næstu þingkosningar. Nú er tímabært að fylkja liði um sambærilega framtíðarsýn þeirra sem ekki styðja hægri stefnu, gamaldags vinnubrögð, SMS-styrki, auðmannadekur, lagasetningar á kjaradeilur og aukinn ójöfnuð í samfélaginu. Ísland á betra skilið.

Við í VG og félagar okkar í stjórnarandstöðunni höfum öll miklar áhyggjur af heilbrigðiskerfinu. Kerfið er að þrotum komið. Stjórnvöld standa fyrir árásum á kerfið, starfsfólk þess og innviði. Heilbrigðisstarfsfólk sætir lagasetningu á kjarabaráttu sína og ekki er komið til móts við réttlátar kröfur BHM og hjúkrunarfræðinga um laun sem endurspegla menntun og þola samanburð við nágrannalöndin. Fremstu ráðamenn þjóðarinnar togast á um framtíðarsýn, byggingu landspítala er sífellt skotið á frest, starfsfólk heilbrigðisþjónustunnar býr við skort á heildarstefnumörkun á meðan ríkisstjórnin daðrar við einkavæðingu og aukin notendagjöld í heilbrigðisþjónustunni. Dæmi eru um einkafyrirtæki í heilbrigðisþjónustu sem ekki virðast valda verkefninu og sæta alvarlegri gagnrýni en fá að halda áfram með blessun ríkisstjórnarinnar. Á sama tíma berast fréttir af eigendum þessara fyrirtækja að fjárfesta í fokdýrum einbýlishúsum. Þetta er að sjálfsögðu óþolandi og gengur þvert á vilja almennings en er um leið algjörlega í anda ríkisstjórnar hægri manna. Um þetta var ekki kosið í síðustu kosningum og þetta þarf að stöðva í þeim næstu, því fyrr, því betra. Þjóðin vill gott og öflugt heilbrigðiskerfi sem opið er öllum, hvernig og hvar sem við stöndum.

Forseti. Stjórnarmeirihlutinn á Alþingi aðhyllist greinilega hugmyndina um einfalt meirihlutaræði í gömlum stíl. Það endurspegla orð hvers ráðherrans á fætur öðrum og má rifja upp orð Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins þegar hann sagði hér í ræðu: Meiri hlutinn ræður.

Viðhorf af þessu tagi eru beinlínis skaðleg fyrir lýðræðið. Með þessu er látið eins og valdið sé ósnertanlegt og að gagnrýni eigi ekkert erindi. Menn láta eins og viðhorf þeirra og verk séu hafin yfir umræðu og hafin yfir rökræður. Hugmyndin er að hægt sé að setja minni hlutann til hliðar, takmarka möguleika hans til að koma sinni sýn á framfæri, stytta ræðutímann og hefta og takmarka málfrelsið. Almenningur er hunsaður og menn vísa í kosningar sem óskorað og varanlegt umboð sem ekki megi efast um. Gjarnan er þá talað um að ekki skuli tekið mark á skoðanakönnunum, að mótmæli byggi á misskilningi, að mótmæli séu sett fram á röngum stað eða á röngum tíma. Skemmst er að minnast mótmælanna 17. júní sem forsætisráðherra þjóðarinnar ákvað að taka ekki til sín á nokkurn hátt en reiði og gremja almennings er raunveruleg og mikilvægt er að hlusta eftir henni. Kannski er það okkar mikilvægasta verkefni, að hlusta í stað þess að halda lofræður, upphefja eigin verk, flokka og þjóð.

Góðir Íslendingar. Þessi þingvetur hefur fært okkur öllum mikilvægan lærdóm. Niðurstaðan verður að vera endurmat á vinnubrögðum okkar og verklagi hér á Alþingi. Meira og opnara samtal verður að eiga sér stað og meiri hlutinn verður að leggja af valdbeitingu og yfirgang. Þau mál sem hér hafa valdið flestum árekstrum hafa flestöll verið brotin á bak aftur þannig að afrakstur stjórnarflokkanna er lítill sem enginn. Tuddapólitík og meirihlutaræði verður að vera liðin tíð.

Óheft markaðsöfl og peningahyggja eru hvarvetna til bölvunar, ógna jöfnuði og mannréttindum um allan heim. Þau leiða til styrjalda, neyða fólk til fátæktar, valda hnattrænni hlýnun og spilla umhverfi okkar, náttúru og auðlindum. Við sjáum öll hve erfitt er að vinda ofan af þeim skaða sem þessi öfl valda um allan heim ekki síður en hér á landi og það minnir okkur á að baráttan við auðvaldið er barátta án landamæra. — Góðar stundir.