144. löggjafarþing — 143. fundur,  1. júlí 2015.

almennar stjórnmálaumræður.

[20:37]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Góðir Íslendingar. Vigdís Finnbogadóttir forseti var á dögunum heiðruð með eftirminnilegum hætti. Síðast sá ég Vigdísi í Melabúðinni þar sem hún var að gefa ungum manni sem vinnur í kjötborðinu fyrirmæli um fiskinn sem hún var að kaupa. Þetta var konan sem sagði: „Nei, það á ekki að kjósa mig af því ég er kona, það á að kjósa mig af því ég er maður og innan orðsins maður er bæði karl og kona“. Það er varla hægt að orða þessa hugsun betur. Þetta var skoðun Vigdísar og svo var hún forseti í 16 ár. Í samfélagi okkar verða menn forsetar og svo aftur venjulegt fólk í Melabúðinni. Í samfélagi okkar fer vægi skoðunar, sé hún ekki byggð á meiðandi fordómum, ekki eftir því hver hefur hana. Skoðanir okkar á eðli og inntaki forsetaembættisins hafa jafnt vægi; mín skoðun, Vigdísar og unga mannsins í kjötborðinu í Melabúðinni. Samt er það svo að núverandi forseti er allt öðruvísi forseti en Vigdís var. Embættið er allt annað.

Hvernig má það vera í samfélagi okkar þar sem skoðanir og atkvæði eiga að hafa jafnt vægi að einn maður geti breytt einni mikilvægustu valdastofnun samfélagsins eftir sínu höfði? Og sem meira er, haft ákvörðunarrétt byggðan á geðþótta og ólíkri röksemdafærslu á því hvaða málum þjóðin fær að segja álit sitt á, enda er það svo að það er á köflum erfitt að sitja þegjandi hér í salnum undir ræðum Ólafs Ragnars Grímssonar. Manni finnst stundum að þingmenn ættu að geta farið í andsvör. Ef forsetinn ætlar að vera pólitískur á hann að lúta lögmálum stjórnmálalegrar rökræðu þar sem sjónarmiðum er andmælt með efnislegum rökum. En bendir þetta ótrúlega misræmi sem er á milli túlkunar Vigdísar Finnbogadóttur og Ólafs Ragnars Grímssonar á eðli og inntaki forsetaembættisins ekki til þess að eitthvað sé að í grunnlögum samfélags okkar, að þau þurfi að skýra? Það finnst mér.

Þess vegna, og af öðrum mikilvægum ástæðum, höfum við í Bjartri framtíð verið áhugafólk um stjórnarskrárbreytingar, um nýja stjórnarskrá. Við vorum þátttakendur í löggjöf og atburðarás á síðasta kjörtímabili sem leiddi af sér mikla áfangasigra í stjórnarskrármálinu, þótt það sé langt frá í höfn. Við lögðum ásamt öðrum fram hugmynd sem fól í sér að hægt verður með einfaldari hætti en áður að framkvæma stjórnarskrárbreytingar samhliða forsetakosningum á næsta ári. Það var til að bjarga ferlinu og líka til að tryggja jafnvægi milli ólíkra skoðana. Það þarf nefnilega einnig að taka tillit til þeirra sem vilja litlar breytingar á stjórnarskrá. Þeir sem telja það mikil svik að ekki skyldi vera lokið við nýja stjórnarskrá á síðasta kjörtímabili verða að horfa til þess hvernig núverandi þingmeirihluti hefði afgreitt þær breytingar. Hann hefði aldrei samþykkt þær. Þeir sem vilja nýta meirihlutaræði til að knýja í gegn nýja grunnlöggjöf í landinu geta ekki í sama orðinu talað um sig sem fulltrúa nýrra tíma í íslenskri pólitík, því að þar birtist sú gamaldags pólitísk sem einkennt hefur þingstörfin síðustu vikur og mánuði og felst í því að tala helst ekki við minni hlutann fyrr en í lengstu lög. „Meiri hlutinn ræður“ er sú pólitík kölluð og hún er óraveg frá þeirri hugsun að skoðun hvers og eins skipti jafn miklu máli. Í meirihlutavaldinu felst getan til að setja dagskrána, raða niður í stóla, skipa ríkisstjórn, en það núllar ekki út skoðanir minni hlutans. Það er af og frá. Með valdinu fylgir sú ábyrgð að taka tillit til ólíkra sjónarmiða.

Það er sögulegt tækifæri sem við fáum á næsta ári til að marka stefnuna, að velja forseta og breyta stjórnarskránni. Úrslitastund að mörgu leyti. Þá rennur upp dagur þar sem við getum ákveðið hvers lags framtíð við viljum. Þá skiptir máli að valkostirnir séu alvöru, að stjórnarskrárbreytingarnar sem hægt verður að kjósa um marki ekki endalok ferlis heldur upphaf nýrrar endurreisnar þar sem grunnlögin og valdastofnanirnar endurspegla fjölbreytileika samfélags okkar og setja stefnuna, að nýr forseti styðji við þá þróun og sem þátttakandi í breytingunum en ekki þröskuldur.

Það er á persónulegri ábyrgð okkar allra að ákveða framtíðina. Það er atkvæði þitt sem horfir á þessa útsendingu sem leggur grunninn að samfélagi okkar. Það ert þú sem sérð þetta á netinu sem markar stefnuna, þú sem dreifir þessu á Facebook sem ákveður að þín skoðun skipti jafn miklu máli og skoðanir þingmanna, ráðherra og forsetans. Það eruð þið sem eruð að hlusta sem kusuð þetta þing. Ef þið eruð óánægð verðið þið að kjósa betur næst, vanda valið og ekki láta glepjast af loforðaflaumi. Gerist pólitísk. Lesið stefnur. Gaumgæfið orð. Það kostar vinnu að taka þátt í lýðræðinu.

Hvaða rugl var þessi leiðrétting? 1.250 heimili sem greiddu auðlegðarskatt fengu leiðréttingu. Þvílíkt bruðl. Þetta er mín skoðun. Hún er ekki dónaskapur. Hún er jafn rétthá skoðunum annarra. Það er krefjandi áskorun að tala um pólitík án þess að rífast. Við Íslendingar þurfum svolítið að vanda okkur í því. Það er oft vondur mórall hérna og við þurfum að laga það. Hvernig? Ekki með því að tala minna saman heldur með því að tala meira saman. Það er pólitík okkar í Bjartri framtíð.

Hér í þinginu hefur allt verið í steik síðustu vikur. Ég fullyrði að hlutirnir væru ekki svona ef Björt framtíð væri við völd. Við mundum ekki stjórna svona.

Ítrekað hafa stór deilumál verið lögð hér fram án nokkurs samráðs eða samtals og afleiðingin er pattstaða. Stjórnarandstaðan hefur sem betur fer getu til þess að stöðva mál og afstýra slysum og hefur sýnt það, síðast í rammaáætlun, að hún hefur burði og samstöðuaflið til þess að gera það.

Í dag greiddum við atkvæði um færslu Hvammsvirkjunar í Þjórsá úr biðflokki í nýtingarflokk. Um þá afgreiðslu eru skiptar skoðanir í hópi þingmanna Bjartrar framtíðar. Sumir með og aðrir, eins og ég sjálfur, á móti. Það sem mest er um vert er að tillagan hefur hlotið umfjöllun verkefnisstjórnar um rammaáætlun og hún mælt með flutningi hennar milli flokka, sem er meira en sagt verður um aðra kosti sem meiri hlutinn í þinginu vildi flytja í nýtingu. Þótt ég vilji ekki breyta landslagi og farvegi Þjórsár meira en orðið er og sé ekki sannfærður um afleiðingarnar á vistkerfi Þjórsár get ég ekki annað sagt en að málið hafi verið metið og skoðað í samræmi við reglur, þær reglur sem við höfum ákveðið. Afstaðan til virkjunarkosta hefur orðið að skurðarási umhverfismála á Íslandi, skiptir máli en ætti ekki eingöngu að skipa fólki í bása; umhverfisverndarsinna eða ekki.

Hugmyndir okkar í Bjartri framtíð um umhverfismál einkennast af áherslum á vistvænar samgöngur og nálæga þjónustu borgarþorpsins þar sem gangandi og hjólandi umferð er gert hátt undir höfði. Umhverfismál eru að okkar mati skipulagsmál, lífsstíls- og neytendamál. Þau eru lýðheilsa og þau eru samfélagslega og viðskiptalega hagkvæm. Þau eru hvorki vinstri né hægri. Þau eru alltumlykjandi og byggja, líkt og skoðanir okkar á samfélagsmálum, jafnt á ábyrgð einstaklinga sem og fyrirtækja, sveitarfélaga og samfélagsins alls. Í borgarþorpinu verður hverfið þitt eins og lítill bær úti á landi og íbúarnir líta á það sem skyldu sína að beina viðskiptum sínum þangað, kjósa með veskinu, því að annars fer þessi þjónusta úr hverfinu. Við viljum nýta og fara vel með, stöðva sóun. Bættar samgöngur, þéttari og sterkari byggðarkjarnar í öllum landshlutum eru umhverfismál. Persónuleg ábyrgð okkar allra skiptir máli. Það sem við gerum mótar umhverfi okkar. Við getum borið ábyrgð á sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda og neysluvenjum okkar. Við getum horft á úrgang sem dýrmæta auðlind. Við getum fullnýtt afurðir sem falla til við vinnslu matvæla á sjó og landi. Við getum bætt flokkun á heimilisúrgangi. Við ættum að koma á samræmdu flokkunarkerfi á landsvísu. Við getum eflt lýðheilsu og hvatt fólk til orkusparandi ferðamáta og vistvænna innkaupa. Við getum beitt sjálfbærum nálgunum til að bæta og nýta betur umhverfi borga og bæja. Við getum eflt umhverfisvitund. Við verðum að hugsa um vatnið okkar, loftið og moldina. Afstaða okkar til virkjana ræður því ekki hvort við erum græn eða ekki, það er persónuleg ábyrgð okkar að vera græn og umhverfisvæn.

Björt framtíð er nýr flokkur. Kannski á það fyrir okkur að liggja að verða eins og gömlu flokkarnir. Eitt er og verður öðruvísi, og virðist kannski ekki vera stórt atriði, en í Bjartri framtíð er ekki staðið upp og klappað þegar formenn hafa flutt ræðu. Sá vandræðalegi kjánahrollur er sniðgenginn af ásetningi, ekki vegna þess að formenn okkar flytji ekki stórkostlegar ræður, það gera þeir, heldur vegna þess að skoðanir allra eru jafn merkilegar. — Góðar stundir.