144. löggjafarþing — 143. fundur,  1. júlí 2015.

almennar stjórnmálaumræður.

[20:47]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Jæja, virðulegi forseti, nú er kominn sá dagur hveim við lýsum liðnu Alþingi á einhverjum örfáum mínútum. Það er svo sem ágæt þjálfun í því að gera óþolandi langa sögu óþolandi stutta, en í því skyni að fyrirbyggja ásakanir um málþóf skal ég bara vera snöggur að því að gorta.

Píratar hafa lagt fram frumvarp um afnám gagnageymdar, frumvarp um skilyrði símahlustunar og aðgangs að fjarskiptaupplýsingum, frumvarp um skráningu barna í trú- og lífsskoðunarfélög, frumvarp um líftíma þingmála á Alþingi — merkilegra mál en margir gera sér grein fyrir — frumvarp um frestun nauðungarsölu, frumvarp um upplýsinga- og sannleiksskyldu ráðherra, frumvarp um útleigu veiðiréttar og sölu veiðileyfa, frumvarp um hagsmunaárekstra alþingismanna, frumvarp um skilyrði fyrir símahlustun lögreglunnar (þ.e. skilyrði símahlustunar og sambærilegra úrræða), frumvarp um afnám fangelsisrefsinga fyrir tjáningu skoðana, frumvarp um afnám banns við guðlasti. Þingsályktunartillögur um stofnun samþykkisskrár, fullgildingu valfrjálsrar bókunar við samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum — annað mál sem virðist ekki það stórtækt en er mjög mikilvægt og gott — sjálfstætt eftirlit með starfsemi og starfsháttum lögreglu, fordæming pyndinga leyniþjónustu Bandaríkjanna, sem maður hefði haldið að ætti auðvelda leið hérna í gegn, jafnt aðgengi að internetinu, sem allir ættu að vera sammála um, hagnýting internetsins og réttindavernd netnotenda og síðast en ekki síst, besta þingmál í heimi, endurskoðun stjórnarskrár lýðveldisins Íslands.

Þetta er síðan fyrir utan ýmist andstöðu eða stuðning við ýmis önnur mál, sérstakar umræður, fyrirspurnir og þess háttar þingstúss. Nóg af gorti.

Fyrst vil ég nefna að fólk utan þingflokksins á þakkir skilið fyrir aðstoð við gerð þessara mála. Ég veit svo sem ekki hvað fólki finnst um þessi afköst en ég verð þó að segja að síðustu mánuði hefur ótrúlegur tími og vinna farið til spillis. Annar hver dagur er eins og lokasena í þætti af „Game of Thrones“, maður veit það eitt að líklega er einhver fullkomin skelfing í þann mund að eiga sér stað. Í rauninni er ekki annar dagskrárliður en fundarstjórn forseta til að ræða slík mál ítarlega og undir þeim kringumstæðum sem við höfum búið við undanfarna mánuði er eðlilegt að um fundarstjórn forseta séu fluttar margar ræður enda hver þeirra aðeins ein mínúta og heyrir til undantekninga að á þær sé hlustað. Þó er einnig mjög margt gagnrýnivert við störf þingsins, virðulegi forseti. Í sjálfu sér er það ekki endilega fundarstjórn sitjandi forseta hverju sinni sem hefur verið hvað gagnrýniverðust þótt hún hafi vissulega lengi verið gagnrýniverð á köflum, heldur fyrst og fremst hvernig fundarstjórn þróast með tímanum út frá gildandi þingsköpum, stjórnarskrá og þeirri staðreynd að forseti þingsins er einnig þingmaður ríkisstjórnarflokks með tilheyrandi pólitískum afleiðingum.

Með þeim orðum tel ég mig hvorki draga úr virðingu né innræti virðulegs forseta heldur bendi ég á staðreynd. Þyki hún óþægileg ætti það að segja okkur eitthvað. Þó ætla ég ekki að drag úr því að hér tíðkast einnig svokallað málþóf, sem er reyndar uppnefni og auðvelt að rugla saman við eðlilega og langa umræðu. Það væri vanvirðing við dómgreind kjósenda að láta eins og stjórnarandstaðan stundi ekki málþóf. Píratar hafa tekið þátt í því eins og okkur er reyndar skylt að gera ef við ætlum að vinna að þeirri stefnumótun sem við erum kjörin til að vinna að. Eins furðulega og það kann að hljóma er það beinlínis lýðræðisleg skylda minnihlutaflokks að stunda málþóf. Ef fólki hér inni þykir það fráleitt er það í góðum félagsskap því að það þykir mér og okkur í Pírötum einnig. Það breytir því ekki að þetta er það eina sem við höfum, svo gef oss miskunnsamara vopn og vér skulum því með glöðu geði heldur beita.

Það liggur í augum uppi að ef meiri hlutinn á alltaf að ráða í skjóli eins eða tveggja bókstafa frá kjósendum á fjögurra ára fresti getur minni hlutinn, sem þó vegur um 40% þingsins, alveg eins farið heim til sín eftir kosningar. Væri það málefnalegt? Væri það lýðræðislegt?

Í fyrstu ræðu minni á hinu háa Alþingi sagði ég að við mundum sigra með því að sannfæra. Ég trúði því þá og hluti af mér trúir því enn þá. En deilurnar sem þrífast hér á Alþingi við þessi þingsköp og þessa stjórnarskrá eru ekki til þess að vekja manni von um að slíkt sé í boði í þeim mæli sem ætti að vera. Sú von er farin að minna á draumóra. En þá segi ég eins og hæstvirtur tónlistarmaður John Lennon: Það má kalla mig draumóramann en ég er ekki sá eini.

Við gætum alveg farið í þann leik að bera saman umræður um fundarstjórn forseta á þessu kjörtímabili við endalausar fimm mínútna ræður sitjandi stjórnarliða á seinasta kjörtímabili, en sá leikur væri til einskis. Málþóf er raunverulegt, kerfislægt vandamál sem ég veit ekki til þess að Píratar hafi nokkurn tímann talið sig yfir hafna. Ekkert okkar er yfir það hafið, ekki þegar vantraustið ristir svo miklu dýpra en ágreiningur um einstaka málefni.

Forseti. Við verðum að horfast í augu við að við treystum ekki hvert öðru. Það þarf að höggva á hnútinn og enginn er til þess betur fallinn en þjóðin sjálf. En vel á minnst, virðulegi forseti, lausnin á þeim vandamálum sem rísa vegna valdþjöppunar og ofurvalds er einföld og augljós: meiri aðkoma almennings milli kosninga.

Ef við ætlum, minni hluti og meiri hluti, að láta hvort við hitt eins og barn í frekjukasti, eins og við gerum, getum við líka látið eins og fleiri séu á staðnum, ýmist að þrífa eftir okkur, mata okkur eða úti að vinna hörðum höndum fyrir okkur, yfirvald sem er stærra og sterkara en við sjálf og fullfært um að útkljá deilur okkar, íslenska þjóðin.

Hver veit nema hún mundi hlusta meira á okkur ef við hlustuðum meira á hana? Ég skil mætavel að fólk treysti okkur illa fyrir málefnum sínum ef við treystum ekki því sjálfu fyrir þeim heldur.

En ljúkum þessu nú á jákvæðum nótum, virðulegi forseti, eins og hæstvirtur tónlistarmaður Jónas Sigurðsson söng með virðulegri hljómsveit, Ritvélum framtíðarinnar, með leyfi forseta:

Hleypið mér út úr þessu partýi,

hér er allt í steik.

Hleypið mér út úr þessum flókna látbragðsleik

sem endar hvergi eins og Góði dátinn Svejk.

Hleypið mér út með rakettureyk.

Með rakettureyk.

Það er ekki auðvelt að vera fastur í þessu paranormalíseraða partýi.

Við erum eins og hótel og gestir okkar eru hugmyndir allra hinna.

Einar fara og aðrar koma síðar í dag

og alltaf bætast nýjar ranghugmyndir í skörðin.

Við rembumst við að lána pening

fyrir aðra

til að keyra áfram neysluna.

Og til að kaupa nýja hluti

fyrir aðra

til ýta undir þensluna.

Svo þessi endalausa vinna

fyrir aðra

til að borga fyrir veisluna.

Og aldrei kemurðu upp úr til að anda.

Nú stendur einhver upp í salnum og segir:

„En lífið er bara svo flókið!“

Ég segi nei!

Nú hringir einhver inn í þáttinn og segir:

„Maður verður að vera raunsær.“

Ég segi nei!

„Maður verður að passa sig að gera ekki mistök til að falla ekki í áliti hinna.“

Nei!

Ég hef fengið nóg af þessu rugli.

Tökum þetta upp á annað plan.