144. löggjafarþing — 143. fundur,  1. júlí 2015.

almennar stjórnmálaumræður.

[20:54]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Á okkur jafnaðarmönnum brennur að tryggja jafnan aðgang allra landsmanna að góðri heilbrigðisþjónustu og menntun. Við viljum styrkja velferðarkerfið okkar og jafna kjör fólksins í landinu. Ástandið í heilbrigðiskerfinu er grafalvarlegt. Við stöndum frammi fyrir því að á fjórða hundrað heilbrigðisstarfsmanna hafa sagt upp störfum úti um allt land en flestir á Landspítalanum. Erfiðleikar vegna skorts á heilbrigðisstarfsmönnum blasa við. Lög á kjaradeilur og hótanir um niðurskurð eru ekki til að bæta ástandið.

Í ríkisfjármálaáætlun sem meiri hluti þingsins samþykkti í gær segir að ef kaupmáttaraukning launa ríkisstarfsmanna fari yfir 2% á ári verði niðurskurður í starfsmannafjölda eða vinnumagni til að mæta þeim kostnaði. Engar líkur eru á að þessi fyrirætlan stjórnvalda muni auka starfsánægju heilbrigðisstarfsmanna, árangur í starfi eða stuðla að minni starfsmannaveltu. Nær væri að stjórnvöld fyndu leiðir til þess að sætta sjónarmið og meta mikilvægi starfanna fyrir samfélagið og að þau áttuðu sig á að aðgerðir, og aðgerðaleysi þeirra eftir atvikum, eru lífshættulegar. Þetta ástand grefur undan heilbrigðiskerfinu, einni mikilvægustu stoð samfélagsins.

Og það er ástæða til að hafa áhyggjur því að heilbrigðiskerfið kom ekki vel undan góðærinu svokallaða fyrir hrun þegar tækifæri voru til uppbyggingar. Niðurskurður í kjölfarið varð því sársaukafyllri en hann hefði þurft að verða. Á sama tíma hefur sjúklingum fjölgað vegna hækkandi aldurs þjóðarinnar. Allt þetta hefur aukið álagið á heilbrigðisstarfsfólkið okkar og það á betra skilið en að fá hótanir frá ríkisstjórninni um enn frekara vinnuálag í stað kjarabóta.

Spyrja má hvort verið sé að svelta heilbrigðiskerfið til að ýta undir einkarekstur en áform ríkisstjórnarinnar um aukinn einkarekstur í heilbrigðiskerfinu munu vafalítið veikja heilbrigðiskerfið, einkum sjúkrahúsin. Áformin eru í andstöðu við þjóðarvilja því að þjóðin vill reka heilbrigðiskerfi sjálf og tryggja öllum aðgang án tillits til efnahags.

Sömu sögu er að segja í menntakerfinu okkar. Í stað þess að auka framlög til framhaldsskólanna í kjölfar kjarabóta framhaldsskólakennara ákvað hægri stjórnin að setja fjöldatakmarkanir á bóknámsbrautir þannig að þeir sem hafa náð 25 ára aldri eiga ekki lengur möguleika á því að ljúka bóknámi í heimabyggð. Þess í stað skulu þeir sækja einkaskóla á Suðurnesjum eða í Borgarfirði og kostnaður vegna námsins margfaldast.

Með fullri virðingu fyrir því starfi sem þar er unnið munu ekki allir geta flust búferlum landshorna á milli til að ljúka framhaldsskólanámi með þessum skilyrðum. Gott aðgengi að skólum hefur jákvæð áhrif á menntunarstig þjóðarinnar og þar með framleiðni og hagvöxt. Auk þess styrkir menntun félagslega stöðu fólks. Hindranir sem settar eru í veg þeirra sem vilja sækja sér menntun er því arfavitlaus aðgerð og engum jafnaðarmanni gæti dottið slíkt í hug enda opnuðu jafnaðarmenn framhaldsskólana fyrir fólki í atvinnuleit þegar atvinnuleysið var sem mest hér á síðasta kjörtímabili.

Ef stefna ríkisstjórnarinnar fær að festast í sessi erum við, þessi fámenna þjóð, komin með þrefalt kerfi bóknáms á framhaldsskólastigi sem allt er rekið með ríkisframlögum, á vegum opinberra framhaldsskóla, einkaskóla og símenntunarmiðstöðva. Afleiðingarnar verða því miður veikara skólakerfi þegar kröftum er dreift með þessum hætti og fátæklegra námsframboð. Framhaldsskólum úti um land hlýtur að fækka og þar með versnar aðgengi allra sem sækjast eftir framhaldsskólanámi, líka ungmenna á aldrinum 16–19 ára. Þetta finnst okkur jafnaðarmönnum ekki góð byggðastefna eða framtíðarsýn.

Helstu hagfræðingar heims hafa lýst yfir skipbroti frjálshyggjustefnunnar og brauðmolakenningar hennar og hvetja nú þjóðir til að stuðla að auknum jöfnuði. Með margþættum rannsóknum á lífskjörum um allan heim hafa fræðimenn sýnt fram á að samfélög sem byggð eru upp í anda jafnaðarmanna eru bestu samfélögin. Þar er best hugað að uppvexti barna og hlúð að þörfum þeirra sem eldri eru. Í samfélögum þar sem jöfnuður er mestur er fólk almennt heilsuhraustara og sáttara við lífið og þar er glæpatíðni lægst. Það eru samfélög sem sannarlega eru þess virði að berjast fyrir.

Það var draumur okkar jafnaðarmanna að sá árangur sem náðist við endurreisn efnahags og samfélags á síðasta kjörtímabili yrði nýttur til að auka jöfnuð enn frekar og til að stuðla að jafnrétti og réttlæti í samfélaginu. Áhrifamestu tækin til jöfnunar eru þrepaskipt tekjuskattskerfi þar sem allir sem það geta leggja sanngjarnan hlut til samfélagsins, líka þeir sem hafa mest handanna á milli, sem og góðar barnabætur til að jafna stöðu barnafólks, húsnæðisbætur og bætur almannatrygginga sem halda í við launaþróun og tryggja stöðu þeirra sem þurfa að reiða sig á bætur. Og aðgengi allra að heilbrigðisþjónustu og skólum óháð efnahag ásamt því að innheimta sanngjarnar tekjur af auðlindum þjóðarinnar til að styðja við fjölbreytt atvinnulíf og velferð.

Kæru landsmenn. Eftir efnahagsáfallið 2008 var efnt til þjóðfundar og umræðu meðal þjóðarinnar um þau gildi sem endurreisa ætti samfélagið á og um endurskoðun á stjórnarskrá. Meginstef í allri þeirri vinnu var ákall eftir jöfnuði og jöfnu aðgengi allra að menntun og heilbrigðisþjónustu. Það er og hefur alltaf verið markmið okkar jafnaðarmanna. — Góðar stundir.