144. löggjafarþing — 143. fundur,  1. júlí 2015.

almennar stjórnmálaumræður.

[21:34]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Góðir landsmenn. Það hefur verið hinum hefðbundnu stjórnmálum, þ.e. pólitískt skipuðum nefndum og Alþingi, um megn að endurskoða stjórnarskrána. Þess vegna var samþykkt hér á Alþingi í júní 2010 að úthýsa verkefninu, ef ég má orða það þannig. Skipuð var stjórnlaganefnd, haldinn þjóðfundur og stjórnlagaráð skilaði tillögum að nýrri stjórnarskrá. Erlendur fræðimaður kallaði þetta lýðræðislega tilraun í eyru mín ekki alls fyrir löngu.

Lyktir stjórnarskrármálsins á síðasta kjörtímabili voru mörgum okkar lítt að skapi. Mörg vorum við hundfúl og óánægð en í stjórnmálasamstarfi gagnast lítið að skella hurðum og það gagnast alls ekki neitt að vera lengi í fýlu. Verði sjónarmið undir er affarasælast að safna vopnum sínum og bíða þess að tækifæri gefist til að koma hugðarefnum sínum á framfæri og til framkvæmda.

Stjórnarskrárnefnd skipuð fulltrúum stjórnmálaflokkanna á Alþingi hefur nú setið að störfum síðan haustið 2013. Þetta er ekki fyrsta stjórnarskrárnefndin sinnar tegundar. Frá lýðveldisstofnun hafa fjórar stjórnarskrárnefndir starfað. Stjórnarskráin er samt enn að meginstofni sú sem samþykkt var árið 1944 og rekja má til dönsku stjórnarskrárinnar frá 1849.

Fjögur mál hafa verið á dagskrá nefndarinnar síðan haustið 2013. Það eru ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur, ákvæði um þjóðareign á náttúruauðlindum, ákvæði um umhverfisvernd og ákvæði um framsal valdheimilda til alþjóðlegra stofnana.

Á næstu vikum mun koma í ljós hvort samkomulag næst í nefndinni. Verði svo er eðlilegt að gera ráð fyrir að næsta haust verði lagt fyrir þingið frumvarp sem geti farið í þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða forsetakosningum sumarið 2016. Bráðabirgðaákvæði sem samþykkt var við stjórnarskrána hér vorið 2013 gerir okkur þetta kleift.

Það hefur komið fram í máli þingmanna hér fyrr í kvöld að vonir eru bundnar við að stjórnarskrárbundinn réttur til að óska eftir þjóðaratkvæðagreiðslum geti orðið forsenda þess að koma á bæði skaplegri umræðuhefð í þinginu og skaplegri samskiptum meiri og minni hluta. Það er sannarlega ekki vanþörf á.

En takið eftir að stjórnarskrárnefndin er aðeins að skoða fjögur ákvæði stjórnarskrárinnar sem alls er 81 grein. Þetta eru að sönnu veigamikil ákvæði og þau eru öll ný. Stjórnarskrártillaga stjórnlagaráðsins var 114 greinar. Núverandi stjórnarskrárnefnd er því alls ekki að endurskoða stjórnarskrána, ekki hingað til að minnsta kosti, heldur ræða þessi fjögur ákvæði.

Margir áhugamenn um endurskoðun stjórnarskrárinnar óttast að verði henni breytt á miðju kjörtímabili muni afturhaldsöfl láta þá breytingu nægja og ýta öðru til hliðar því að varla er hægt að kalla það endurskoðun að nefnd skoði fjögur ákvæði, þótt það taki hátt í tvö ár. Þess vegna er nauðsynlegt að stjórnarflokkarnir geri nú, þegar við hefjum seinni hluta kjörtímabilsins, grein fyrir afstöðu sinni til endurskoðunar stjórnarskrárinnar.

Hver er afstaðan til mannréttindakafla hennar? Er ekki nauðsynlegt að endurskoða hann eftir 20 ár eins og framfarir í þeim málaflokki eru? Er ekki þörf á að festa rétt til upplýsinga í stjórnarskrá? Og er ekki nauðsynlegt að stjórnarskrárbinda frelsi fjölmiðla, eins áhrifamiklir og þeir eru í nútímaþjóðfélagi? Erum við sátt við atkvæðamisvægið í landinu? Teljum við réttlátt að þeir sem búa norðan Hvalfjarðarganganna hafi rúmlega tvöfaldan atkvæðisrétt á við þá sem búa sunnan þeirra?

Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu sem meðal annars á að efla mannréttindi og lýðræði gerir athugasemdir við kosningakerfið hér á landi. Öryggis- og samvinnustofnunin segir að atkvæði allra eigi að vega jafnt og að munurinn megi ekki að vera meiri en 10%. Hér fer hann upp í allt að 250%.

Stjórnlagaráðið gerði tillögur um að efla völd þingsins á kostnað framkvæmdarvaldsins. Sú tillaga kom í kjölfar skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis sem gagnrýndi mjög ráðherraræði hér á landi, ráðherraræðið sem því miður er enn við lýði og jafnvel í algleymingi þessi missirin. Ég nefni bara fiskistofuævintýrið, bréfið til Evrópusambandsins og flutning á stjórnsýslu safnamála frá menntamálaráðuneyti til að koma til móts við áhugamál forsætisráðherrans.

Í vinnunni við stjórnarskrárbreytingar á síðasta kjörtímabili liggur mikil fjárfesting. Í afrakstri þessarar vinnu eigum við mikinn fjársjóð. Við eigum ekki bara að nota þann fjársjóð, okkur er skylt að gera það. Það má ekki verða að vinna við fjögur ný stjórnarskrárákvæði verði til þess að endurskoðun stjórnarskrárinnar allrar gleymist og verði lögð til hliðar.

Ef ákvæði í stjórnarskrá eru tré er stjórnarskráin öll skógur. Ég segi, virðulegi forseti: Við verðum að sjá skóginn fyrir trjánum. — Góðar stundir.