144. löggjafarþing — 143. fundur,  1. júlí 2015.

almennar stjórnmálaumræður.

[21:40]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Kæru landsmenn. Það fór eins og ég óttaðist, að ræðutími minn mundi skerðast. Ég er samt ekki í fýlu út af því, það voru það góðar ræður hjá mínum flokksmönnum. Ég þarf að leggja ræðunni minni sem átti auðvitað að vera tímamótaræða og geyma hana til betri tíma en af því að ég er sjálfhverfur eins og við flest hér ætla ég aðeins að ræða um okkur.

Ég hef lengi velt fyrir mér af hverju tiltrú landsmanna á okkur fer minnkandi ár frá ári. Ég hef komist að þeirri niðurstöðu að það sé ekki af því við höfum stjórnað illa, ekki af því að við gætum ekki hagsmuna þjóðarinnar. Hér varð hrun alls fjármálakerfisins fyrir sjö árum. Hvernig hefur okkur tekist að vinna úr því? Það voru ekki lélegir stjórnmálamenn sem unnu úr því. Ríkisstjórn Geirs Haardes lagði grunninn með neyðarlögum og stóð sig frábærlega vel. Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur stóð sig bara líka vel að mörgu leyti. Ég hefði viljað gera margt öðruvísi og öllum eru mislagðar hendur en þetta tókst vel og ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur kláraði síðan það sem upphaflega var lagt upp með hvað varðar fjármálakerfið og á hrós skilið fyrir það.

Núverandi ríkisstjórn hefur líka staðið sig vel, bara mjög vel. Hér hefur verið gífurlegur uppgangur, góðar ákvarðanir teknar og þeim fylgt eftir með vönduðum vinnubrögðum. Frábært starf. Tiltrúin minnkar samt alltaf. Af hverju gerist það? Getur það verið bara af því hvernig við högum okkur akkúrat hér? Ég hef ekkert á móti átökum í stjórnmálum. Ég held að það eigi að vera átök. En við verðum að kunna að fara í þessi átök. Hugmyndir skipta máli og það hvernig við störfum. Þetta er allt mikilvægt. Við verðum að standa okkur betur í því.

Ég hef verið frekar ósáttur síðustu vikurnar. Mér finnst stjórnarandstaðan hafa haldið okkur svolítið í gíslingu, búið til ný orð eins og að meirihlutaræði væri bara úrelt og þingræðið sömuleiðis. Stjórnarandstaðan er með nálægt því jafn mikið fylgi og stjórnin og þá á stjórnarandstaðan að fá að ráða jafn miklu, en þetta gengur ekki svona fyrir sig og á ekki að gera það.

Svo segir jafnvel sama fólkið: Hér þarf fleiri þjóðaratkvæðagreiðslur. Hver eru nú völd minni hlutans í niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu? Núll.

Við eigum hins vegar að tala saman og við eigum að hlusta. Það kemur margt gott út úr samræðunni og margt sem við tökum upp, stjórnin frá stjórnarandstöðunni. Við munum gera það áfram en við verðum að bæta okkur sjálf. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)