144. löggjafarþing — 144. fundur,  2. júlí 2015.

réttur til að kalla eftir þjóðaratkvæðagreiðslu.

[11:04]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Hugmyndir um að einn þriðji þings eða eitthvert annað hlutfall minni hlutans geti sent mál til þjóðaratkvæðagreiðslu hafa komið fram í átökum þingsins í vetur og stundum áður. Þær hafa komið fram eins og ég hef upplifað þetta vegna þess að það er ekki til staðar réttur í stjórnarskránni fyrir fólkið í landinu til að kalla eftir því að mál sem hér eru leidd til lykta gangi til þjóðaratkvæðis. Verði slíkur réttur færður í stjórnarskrána þannig að eitthvert tiltekið hlutfall kosningarbærra manna geti farið fram á þjóðaratkvæðagreiðslu um lög frá Alþingi með ekki ósvipuðum hætti og hefur gerst á grundvelli 26. gr. stjórnarskrárinnar fyndist mér mun minni þörf fyrir slíkan rétt til handa minni hlutanum á þingi.

Ég verð að segja að sama skapi að mér fyndist þá minni ástæða til að viðhalda því sem er að finna í 26. gr. stjórnarskrárinnar, rétti forsetans til að vísa málum til þjóðarinnar. Hvers vegna ættum við annars að hafa áhyggjur af því að slíkur réttur væri ekki til staðar ef tilskilið hlutfall kosningarbærra manna kallar ekki eftir því að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram? Hver er þá skaðinn af því að forsetinn hafi ekki það vald? Hvers vegna og undir hvaða kringumstæðum ætti forsetinn að beita því valdi að senda mál til þjóðaratkvæðis ef þjóðin kallar ekki eftir því? Hvaða réttlætingu gæti forsetinn notað og vísað til til þess að senda mál við þær aðstæður til þjóðaratkvæðis? Ég spyr að sama skapi: Hvenær ætti þriðjungur þings að beita þeim rétti þegar enn hefur þá ekki reynt á hvort tilskilinn fjöldi kosningarbærra manna kallar eftir því? Þetta er eiginlega mitt svar.