144. löggjafarþing — 144. fundur,  2. júlí 2015.

réttur til að kalla eftir þjóðaratkvæðagreiðslu.

[11:06]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Ég er sammála honum um að ef í stjórnarskrá kemur ákvæði um rétt tiltekins hluta þjóðarinnar til að kalla eftir þjóðaratkvæðagreiðslu og minni hluta þings til að vísa málum í þjóðaratkvæðagreiðslu er auðvitað fráleitt að áfram verði fyrir hendi málskotsréttur forseta. Þá er hann óþarfur.

Ég ætla að freista þess að útskýra fyrir hæstv. ráðherra hvern ávinning ég sé í því að þriðjungur þingmanna geti, til viðbótar við einhvern hluta þjóðarinnar, kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er þá sú staðreynd að með því styðjum við við þingræðið. Við tryggjum að ríkisstjórn á hverjum tíma leitar eftir víðtækari samstöðu um þingmál en hún gerir ella vegna þess að hún veit að minni hlutinn hefur þetta vald, hún undirbýr málin betur og freistar þess að fá meira en tvo þriðju með sér á málin. Með því móti drögum við úr átökum á þinginu (Forseti hringir.) og getum losnað úr þeirri úlfakreppu sem við erum í með þá stöðu að ræðustóll Alþingis er eina stjórntæki minni hlutans.