144. löggjafarþing — 144. fundur,  2. júlí 2015.

réttur til að kalla eftir þjóðaratkvæðagreiðslu.

[11:07]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Það er ekki svo að engin rök séu með því að minni hluti þings geti kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um mál, en þetta þarf allt að vega og meta hvað á móti öðru. Þar sem slíkum rétti er til að dreifa, eins og í Danmörku, hefur það heyrt til algerra undantekninga að honum sé beitt. Þá mundi einhver segja að það væri vegna þess að menn hafi leitað málamiðlana. Samt hafa menn þar tekist mjög harkalega á um ákveðin málefni.

Við skulum líka horfast í augu við að það kann að skapast freistnivandi í erfiðum málum sem þarf að leiða til lykta á grundvelli fulltrúalýðræðis og með hangandi yfir sér rétt fólks til að kalla eftir þjóðaratkvæði um málið. Þá kann að vera freistandi að vísa málum til þjóðarinnar við ákveðnar aðstæður og það skal ekki gert lítið úr þeirri stöðu sem þannig kann að rísa. En aðalatriðið er að (Forseti hringir.) mér finnst þetta ekki vera alveg svart/hvítt, mér finnst bara draga mjög úr þörfinni fyrir þann tiltekna rétt þegar þjóðin hefur fengið hann í sínar hendur.