144. löggjafarþing — 144. fundur,  2. júlí 2015.

samgönguáætlun.

[11:13]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Þarna tæpir hæstv. innanríkisráðherra á mjög mikilvægu máli, sem er samspil laga og annarra samþykkta þingsins við fjárlög. Þar hefur stundum verið misbrestur á og stundum láta menn eins og fjárlög séu öllu öðru yfirsterkari, eins og sjá mátti í málflutningi í nýlegum dómi sem féll um túlkun fyrir heyrnarlausa þar sem um er að ræða stjórnarskrárvarin réttindi sem ekki er hægt að segja að lúti fjárlögum.

Ég skil klemmu hæstv. innanríkisráðherra, sem er með þessa ályktun til þingsályktunar, og síðan þarf að samrýma ályktunina fjárlögum. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hennar og þær upplýsingar sem hún gaf hér. Það er auðvitað mjög bagalegt að þetta sé í þriðja skipti sem afgreiðslu samgönguáætlunar er frestað, eins og fram kom hjá hæstv. ráðherra.

Hæstv. ráðherra sagði það líka skýrt hér að áætlunin mætti ekki vera óskalisti. Þá langar mig að spyrja: Er ráðherra sammála þeim breytingum sem meiri hluti (Forseti hringir.) hv. umhverfis- og samgöngunefndar leggur til í nefndarálitinu?