144. löggjafarþing — 144. fundur,  2. júlí 2015.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

[11:25]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Þetta er mikilvægt en um leið dálítið vandmeðfarið umræðuefni í stuttri umræðu. Ég ætla að leyfa mér að vekja athygli á því hér, sem við höfum ekki verið að ræða í dag, að það getur skipt máli fyrir heildarniðurstöðuna hver þátttakan er þegar upp er staðið. Það hefur mér alltaf þótt mæla með því að það þurfi greinilegan og ákveðinn vilja þjóðarinnar til að kalla eftir þjóðaratkvæði. Með því er ég að segja að ég hef verið frekar hallur undir það að 5–10% væru ekki nóg, það þyrfti kannski að vera nær 20%, sem sagt skýr krafa þjóðarinnar um að fá mál til sín. Hættan er sú að ef við mundum byggja á 5%-reglunni eða 10%-reglunni og fá síðan í framhaldinu mjög laka þátttöku í þjóðaratkvæðagreiðslunni væri sú niðurstaða á engan hátt lýðræðislegri eða skýrari en sú sem er dregin fram á grundvelli fulltrúalýðræðis þar sem er almenn þátttaka í kosningum til þingsins.

Þessir hlutir vegast á í mínum huga, þ.e. krafan um það hversu einbeitt eða ákveðið ákall kemur frá þjóðinni. Það má hugsa sér, a.m.k. á meðan við erum með kjördæmaskiptinguna sem við byggjum á í dag, að eitthvert lágmark úr hverju kjördæmi þurfi að kalla eftir þjóðaratkvæði. Það er dálítið flókið að þræða öll atriðin sem þarf að horfa til í svona stuttu svari en þetta er það sem ég er að hugsa um, krafa um lágmarkshlutfall kosningarbærra manna annars vegar og hins vegar þátttökukrafa í þjóðaratkvæðagreiðslunni.

Önnur atriði sem mér finnst þurfa að skoða núna við endurskoðun á stjórnarskránni eru umhverfisákvæði í stjórnarskrá, auðlindaákvæði í stjórnarskrá, framsalsákvæði þar sem við tökum af skarið um það hvar mörkin liggja varðandi heimildir þingsins til að framselja vald til alþjóðlegra stofnana. Um það hefur rétturinn verið að þróast á undanförnum árum og áratugum án þess (Forseti hringir.) að til staðar væri skýr grein í stjórnarskránni. Ég er sem sagt ekki að kalla eftir því að heimildir verði mjög auknar hvað það efni snertir.