144. löggjafarþing — 144. fundur,  2. júlí 2015.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

[11:29]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Það hefur verið mikið grundvallaratriði fyrir mér í umræðu um ákvæði stjórnarskrár um þjóðaratkvæði eða minni hluta þings til að kalla eftir þjóðaratkvæði að við byggðum á samspili fulltrúalýðræðisins annars vegar og hins vegar rétti fólks til að koma með beinum hætti að ákvarðanatöku. Ég er með því að segja að fulltrúalýðræðið hefur gefist okkur vel þó að við getum þroskað beina lýðræðið áfram samhliða því.

Varðandi heildarendurskoðun á stjórnarskránni hef ég verið þeirrar skoðunar að hún þarfnist í raun og veru ekki heildarendurskoðunar enda hafa sumir kaflar stjórnarskrárinnar tiltölulega nýlega, a.m.k. í ljósi þess hversu gömul stjórnarskráin er, verið endurskoðaðir. Heilu kaflarnir hafa komið inn, eins og mannréttindakaflinn. Það er ekki svo langt síðan þegar borið er saman við það hve langt líður á milli þess að margar aðrar stjórnarskrár eru skoðaðar. Það á sér langan aðdraganda í til dæmis (Forseti hringir.) Bandaríkjunum og það eru skrifaðir heilu bókahillumetrarnir um einstakar greinar áður en menn hugleiða að gera breytingar. Rétturinn getur þróast þrátt fyrir að menn fari ekki í heildarendurskoðun á allri stjórnarskránni.