144. löggjafarþing — 144. fundur,  2. júlí 2015.

veiðigjöld.

692. mál
[11:57]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég vil fyrst taka undir lokaorð síðasta hv. ræðumanns Kristjáns L. Möllers. Mér finnst alveg óborganlegt að núverandi ríkisstjórn ætli að ganga frá veiðigjöldunum með þessum hætti til þriggja ára og talsvert inn á næsta kjörtímabil þegar hún hefur sjálft í hvert einasta skipti í þrjú ár í röð þurft að breyta með handafli veiðigjöldunum og gerir núna, breytir með handafli veiðigjöldunum þó að þau ættu að ákvarðast á grunni þeirrar aðferðafræði sem hún vill festa í lög til þriggja ára. Það segir sína sögu.

Að öðru leyti ætlaði ég örstutt að svara hv. þm. Jóni Gunnarssyni sem auðvitað hélt sig við sinn hatt hér í ræðu áðan og fór nokkuð mikinn, sakaði aðra um tvískinnung og ef ekki hræsni, að menn mundu flæma sjávarútveginn jafnvel úr landi, hann færi bara á eftir Actavis ef svo héldi sem horfði eða ef menn gengju óhóflega að honum í gjaldtöku.

Hv. þingmaður stillir því þannig upp að það sé mótsögn í því hvað minni hlutann varðar að leggja til vel útfærða breytingartillögu um afslátt til lítilla og meðalstórra útgerða en telja jafnframt að greinin geti í heild borið hærri veiðigjöld. Þetta telur hv. þingmaður vera mótsögn, tvískinnung, hræsni, eitthvað af því tagi. (Gripið fram í.) Eitthvað í þá áttina. Þetta er nefnilega akkúrat öfugt og hugsunin með því að útfæra vel ívilnandi aðgerðir sem létta litlum og meðalstórum fyrirtækjum það að bera veiðigjöldin, á nákvæmlega sama hátt og skuldafrádrátturinn gerir skuldugustu fyrirtækjunum vegna kvótakaupa auðveldara að bera veiðigjöldin, þá þolir greinin að öðru leyti hærri almenn veiðigjöld, vegna þess að það er það sem er verið að leitast við, að koma til móts við þá aðila sem ættu í erfiðleikum með að bera full auðlindagjöld með slíkum ráðstöfunum, eins og að taka tillit til skulda þeirra vegna kvótakaupa og eins og að styðja við bakið á minni einingunum sem hafa auðvitað ekki sömu fjárhagslega burði og ekki jafn ríkulegan aðgang að auðlindinni og þeir stóru hafa og er fullkomlega eðlilegt. Þá þolir greinin að öðru leyti, og afkoma hennar býður upp á það, hærri almenn auðlindagjöld. Þess vegna er þetta ekki mótsögn heldur einmitt í rökréttu samhengi, eins og hv. þingmaður ætti kannski að reyna að skilja.

Hv. þingmaður taldi að það væri skortur á því að menn þyrðu að kannast við stefnu sína í þessum málum og vísaði til þess að menn væru kannski ekki að veifa því í sjávarbyggðunum á Vopnafirði eða Þórshöfn eða Dalvík að þeir teldu að sjávarútvegurinn gæti greitt hærri almenn veiðigjöld ef þau væru skynsamlega útfærð. Það á að minnsta kosti ekki við um þann sem hér talar.

Á sjávarútvegsráðstefnunni 20.–21. nóvember síðastliðinn var ég beðinn af aðstandendum ráðstefnunnar að halda erindi og reyna að svara spurningunni: Hvað er sanngjarnt auðlindagjald? Ég stillti reyndar spurningunni upp svona: Hvað er sanngjarnt auðlindagjald gagnvart hverjum? Vegna þess að það snýr í tvær áttir. Sanngirnin snýr bæði að sjávarútveginum, auðvitað, að honum sé ekki ofboðið með gjaldtökunni, en sanngirnin snýr líka að þjóðinni, eiganda auðlindarinnar sem eðlilegt er að geri tilkall til hluta af rentunni. Ég var ekki að fela niðurstöðu mína í þeim efnum. Í mjög ítarlegu erindi, ég get sent hv. þingmanni a.m.k. glærusýninguna sem fylgdi eða ég studdist við, lagði ég að ég tel býsna traustan staðreynda- og fræðigrunn að því, með því að fara yfir afkomu sjávarútvegsins undanfarin ár með því að skoða framlegðina, með því að skoða eiginfjárþróunina og með því að skoða horfurnar, að 16 milljarðar plús í auðlindagjöld miðað við núverandi afkomu væri hóflegur skerfur til þjóðarinnar — 16 milljarðar plús væru hóflegur skerfur til þjóðarinnar — og við það stend ég. Framlegðin verður sjálfsagt um 80 milljarðar á þessu ári og 16 milljarða auðlindagjöld skilja þá eftir um 65 milljarða í framlegð, fjármunamyndun í greininni, á móti kemur líka einhver lækkun tekjuskatts eftir því sem auðlindagjaldtakan er hærri, og hver ætlar að halda því fram að 65 milljarðar í framlegð sé ekki prýðileg útkoma fyrir greinina heilt yfir séð? Vegna þess að aldrei hefur íslenskur sjávarútvegur í sögu sinni fyrr en árið 2009/2010 séð framlegðartölur af því tagi. Hann hefur búið við einstakt góðæri núna og er að gera áttunda árið í röð. Það er ánægjulegt, það er gleðilegt, það er gott fyrir okkur öll, en við skulum ekki láta segja okkur draugasögur í myrkri. Íslenskur sjávarútvegur er ekkert á leið úr landi þó að hann skilaði hóflegri auðlindarentu til þjóðarinnar.