144. löggjafarþing — 144. fundur,  2. júlí 2015.

veiðigjöld.

692. mál
[12:02]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég og hv. þingmaður Steingrímur J. Sigfússon erum algjörlega sammála um það að munur er á rekstrarumhverfi fyrirtækja eftir mismunandi útgerðarformi í landinu. Ég held að við séum sammála um að við viljum halda fjölbreytni í íslenskum sjávarútvegi. Staðreyndin er aftur sú að það yfirboð sem birtist í tillögu Vinstri grænna, breytingartillögu þeirra við þetta frumvarp, snýr að því að gefa aukinn afslátt til meðalstórra fyrirtækja, eins og það er lagt fram. Þetta mun ekki koma minnstu fyrirtækjunum til góða neitt umfram það sem gert er ráð fyrir í afsláttarfyrirkomulagi, sem er ríflegra en áður, sem núverandi meiri hluti leggur fram. Þá veltir maður því fyrir sér hvað verið er að nálgast og hvar mörkin liggja og hversu mikið af þessari framlegð verður til í fullvinnslu afurðanna á Íslandi. Það er það sem þetta snýst um.

Þannig er að tíu fyrirtæki á Íslandi í sjávarútvegi framleiða 61% af EBITDA. Önnur 35 fyrirtæki framleiða um 29% af EBITDA. Með öðrum orðum eru innan við 50 fyrirtæki með um 90% af EBITDA. Nú er hv. þingmaður farinn að slá af, hann er farinn að gefa afslátt af fyrri hugmyndum sem hljóðuðu upp á 25 milljarða og kominn niður í 16 plús, sá plús er auðvitað óræður en á sér væntanlega rætur að rekja í vinnslu afurða. Blasir það ekki við, Actavis-dæmið er til marks um það, að ef of miklar álögur eru lagðar á framleiðsluna hér á landi, fullvinnslu afurða, getur hún flutt úr landi? Væri til of mikils mælst að hv. þingmaður legði þá fram tillögu um það hvað þessi fyrirtæki, þau örfáu fyrirtæki, þurfa að borga í viðbót í veiðigjöld og kynni þjóðinni og þeim fyrirtækjum hvað hann telji þau geta borgað umfram það sem er verið að (Forseti hringir.) leggja á þau í dag? Ég held að það væri heiðarlegast inn í þessa umræðu að útreikningarnir á því fylgdu. Það ætti ekki að vera flókið miðað við hversu einfalda mynd hv. þingmaður dregur upp í þessu máli.