144. löggjafarþing — 144. fundur,  2. júlí 2015.

veiðigjöld.

692. mál
[12:08]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef satt best að segja engan áhuga á því að eiga orðaskipti við hv. þm. Jón Gunnarsson í formi útúrsnúninga um þessi mál. Ég er hins vegar áhugamaður um þetta mál og vil málefnalega og uppbyggilega umfjöllun um auðlindagjöld og skattalegt fyrirkomulag þegar kemur að nýtingu sameiginlegra auðlinda. Við eigum því miður þó nokkuð í land, Íslendingar, varðandi það að þróa rétt okkar í þeim efnum eins og flestar þróaðar þjóðir í kringum okkur hafa gert. Dæmi: Norðmenn, Kanadamenn, sem eru komnir með tiltölulega mótaða löggjöf um gjaldtöku vegna aðgangs einkaaðila að sameiginlegum auðlindum þjóðanna. Það er það sem við þurfum að gera hér. Auðlindarentuhugsunin er alls staðar að ryðja sér til rúms í þessum efnum. Þegar Ísland var í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, sem kom tvisvar sinnum með öflugar sendinefndir utanaðkomandi sérfræðinga og sinna eigin manna til Íslands til að ræða við okkur um m.a. skattamál, þá bentu þeir sérstaklega á þetta og sögðu: Land eins og Ísland, svona ríkt af náttúruauðlindum, þarf að sjálfsögðu að leggja í vinnu í að móta sína löggjöf á því sviði hvað varðar eðlilega gjaldtöku fyrir nýtingu auðlindanna. Þeir hafa ítrekað bent á það og þeir hafa gagnrýnt að núverandi ríkisstjórn skyldi ganga jafn bratt í það að lækka veiðigjöldin og hún gerði.

Er hætta á því að íslensk fiskvinnsla eða hluti af starfsemi íslenska sjávarútvegsins fari til Búlgaríu eða eitthvað annað út í lönd út af svona gjaldtöku? Nei, ég held satt besta að segja að það séu hverfandi líkur á því einfaldlega vegna þess að íslenskur sjávarútvegur finnur sér hvergi betri starfsskilyrði en hér. Okkar háþróaða fiskvinnsla er samþætt við útgerðina og vinnur að verulegu leyti ferskt hráefni á markað. Halda menn að menn tækju þorskinn ísaðan í land á Akureyri, flygju honum til Búlgaríu til að flaka hann og svo til baka til Bretlands á markað? Það er auðvitað er eins og hver önnur fjarstæða og styrkur okkar liggur m.a. í þessari samþættingu og það höfum við umfram Norðmenn að við erum með samþætta grein. Þeir sem selja á markaði fóðra aðra aðila sem yfirleitt kaupa þann fisk til að vinna hann og mikið ferskt. (Forseti hringir.) Og ferskleikinn og tímalínan gerir það af sjálfu sér að slík vinnsla fer ekki eitthvað annað. Hún er og verður hér.