144. löggjafarþing — 144. fundur,  2. júlí 2015.

uppbygging innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka.

800. mál
[12:18]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 41/2013, um heimild til handa ráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, til að fjármagna uppbyggingu innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka í Norðurþingi, með síðari breytingum.

Með frumvarpinu er lögð til breyting á lögum nr. 41/2013 í þá veru að fella brott fjárhæð sem þar er lögfest enda hefur komið í ljós að kostnaður við gerð vegtengingarinnar er meiri en áður var talið.

Meiri hlutinn bendir á að því frumvarpi sem varð að lögum nr. 41/2013 fylgdi umsögn fjárlagaskrifstofu fjármála- og efnahagsráðuneytisins eins og venja er. Þar var bent á að í frumvarpinu væri kveðið á um að atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra fengi heimild til að semja annars vegar við Vegagerðina um gerð vegtengingar við iðnaðarsvæðið og hins vegar við hafnarsjóð Húsavíkurhafnar um fjárframlag í formi víkjandi láns. Í umsögninni var bent á að uppbygging og rekstur samgönguinnviða heyrðu undir verksvið innanríkisráðherra og að lánsfjármál væru á hendi fjármála- og efnahagsráðherra.

Á 143. löggjafarþingi lagði meiri hluti atvinnuveganefndar til breytingu á lögunum í því skyni að framlengja gildistíma þeirra um eitt ár og var einnig lagt til að heimild til að semja við hafnarsjóðinn um víkjandi lán heyrði undir þann ráðherra sem fer með lánsfjármál ríkissjóðs, þ.e. fjármála- og efnahagsráðherra. Frumvarp nefndarinnar var samþykkt, samanber lög nr. 131/2014.

Þar sem samgönguframkvæmdir almennt falla undir málefnasvið innanríkisráðherra kom til umræðu í nefndinni hvort heppilegra væri að svo væri einnig í þessu tilviki, þ.e. að innanríkisráðherra fari með forræði þeirrar framkvæmdar sem heyrir undir lögin.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Undir það rita hv. þingmenn Jón Gunnarsson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Haraldur Benediktsson, Ásmundur Friðriksson, Páll Jóhann Pálsson, Þorsteinn Sæmundsson og Haraldur Einarsson.

Hv. þm. Kristján L. Möller var fjarverandi við afgreiðslu málsins vegna ferðar sinnar fyrir hönd forseta þingsins til Færeyja, en hann er nú, eins og fram hefur komið, mikill áhugamaður um þetta mál.

Virðulegi forseti. Ég ætla að nota þetta tækifæri til að benda enn og aftur á þann tvískinnung sem er í málflutningi vinstri flokkanna á þingi. Hér erum við að tala um orkufrekan iðnað, uppbyggingu á Bakka, sem við fögnum flest. Þar er reyndar gengið lengra í ívilnunarframlögum af hálfu hins opinbera en í nokkru öðru slíku verkefni sem hér hefur farið af stað og er langt umfram þau ívilnunarlög sem nú eru samþykkt á þessu þingi fyrir almennt fjárfestingarumhverfi slíkra fyrirtækja. Þetta verkefni kom hér inn á þing á síðasta kjörtímabili, það var stutt af þáverandi ríkisstjórnarflokkum, Vinstri grænum, Samfylkingu, Bjartri framtíð og fleirum. En svo kemur að því að við ræðum hér rammaáætlun og þá nauðsynlegu tengingu sem hún hefur við sambærileg verkefni sunnan heiða, og þá fer allt í lás. Ég hef reynt að draga fram þennan tvískinnung í málflutningi flokkanna í þessari umræðu og vil ítreka það hér.