144. löggjafarþing — 144. fundur,  2. júlí 2015.

uppbygging innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka.

800. mál
[12:24]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér liggur fyrir nefndarálit frá bæði meiri hluta og minni hluta. Það ber að segja í upphafi að ég tek undir hvert orð frá hv. þm. Eldari Ástþórssyni sem kemur fram í nefndarálitinu. Eins og við vitum lítur þetta út fyrir mér sem opinn stóriðjutékki frá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni umhverfisverndarsinna, því að farið var af stað með þetta verkefni á síðasta ári.

Eins og við vitum eru Vinstri grænir á móti allri stóriðju nema stundum, en farið var í stóriðju í tíð síðustu ríkisstjórnar og það var akkúrat í heimakjördæmi hv. þingmanns. Það er óásættanlegt hvernig verkið stendur. Ég tek það fram að ég styð alla atvinnuuppbyggingu, hringinn í kringum landið, en svona áætlanagerð gengur náttúrlega ekki þegar litið er til ríkisfjármála.

Hér var farið fram á það upphaflega í lögum nr. 41/2013 að veita ráðherra heimild og það skrýtna í þessu máli er að farið var með þetta verkefni inn í atvinnuvegaráðuneytið, en á þeim tíma var hv. Steingrímur J. Sigfússon atvinnuvegaráðherra. Samkvæmt fjárreiðulögum ríkisins er einungis hægt að veita heimild á fjárlögum handa fjármálaráðherra, þannig að ég gerði miklar athugasemdir við þessa lagasetningu við 1. umr. málsins. Ég vil að þetta verkefni fari á sinn stað, eins og kemur fram í umsögn fjármálaskrifstofu fjármálaráðuneytisins við þetta lagafrumvarp og lög sem nú er verið að breyta með þessu máli. Í þeirri umsögn kom fram og var bent á að uppbygging og rekstur samgönguinnviða heyrði undir verksvið innanríkisráðherra og að lánamál ríkisins væru á hendi fjármála- og efnahagsráðherra. Samt var farin sú leið á síðasta kjörtímabili að setja þetta verkefni undir atvinnuvegaráðuneytið. Þetta eru alveg dæmalaus vinnubrögð og skrýtið að þetta skuli hafa farið svona í gegnum þingið, sem minnir okkur á það enn einu sinni að hér verður að koma á stofn lagaskrifstofu Alþingis þannig að svona slys verði ekki.

Við vitum að síðasta ríkisstjórn skar niður á ýmsum viðkvæmum stöðum í grunnþjónustunni til að hafa svigrúm fyrir önnur verkefni, sem ég hef stundum kallað gæluverkefni, og það sem gerðist var að einhvern veginn varð að finna svigrúm hvað varðar að setja þetta til dæmis ekki inn í samgönguáætlun, því að þetta eru jarðgöng, að vísu fyrir þungaflutninga. Verkefnið var hvergi hýst hjá fagaðilum. Vegagerðin vill ekki koma nálægt þessu máli og kom á fund fjárlaganefndar og frábað sér ábyrgð á þessari framúrkeyrslu og þessum göngum vegna þess að þetta er ekki inni á borði Vegagerðarinnar, sem er alveg hreint með ólíkindum. Svo vakna menn upp við það einhvern tíma í lok síðasta árs að verkefnið er nú þegar farið úr 1.800 milljónum, eins og frumvarpið gerði ráð fyrir, í 3.100 milljónir. Það hefur nú þegar hækkað um 70% og verkefninu er ekki lokið. Það hafa komið einhverjar eftiráskýringar um að þetta sé á jarðskjálftasvæði og þarna hafi jarðlög verið með öðrum hætti en áætlað var. Þá segi ég enn og aftur: Ef verið er að fara af stað í svona verkefni verður að rannsaka allt til hlítar áður en verkefninu er hleypt af stað hér í þinginu með lagasetningu.

Það var einnig bent á að varla væri hægt að tala um þetta sem víkjandi lán, eins og kom fram í upphaflega frumvarpinu, heldur væri þetta beinn ríkisstyrkur og þá spyr ég eftir ríkisstyrkjareglum ESA þegar kostnaður hefur hækkað um 70%. Þetta er eins og annað, það er verið að veita opna heimild til að hægt sé að klára þetta verkefni. En 70% framúrkeyrsla er óásættanleg þegar verið er að reyna að hemja ríkisreksturinn og draga úr kostnaði og þá koma svona stórir gúmmítékkar, sem farið var í á síðasta kjörtímabili, algerlega ófjármagnaðir.

Ég vildi segja þetta. Ég talaði fyrir því í 1. umr. að þessu verkefni yrði falinn staður á réttum stað í innanríkisráðuneyti og í fjármálaráðuneyti fyrst verið væri að opna lögin og gera á þeim lagabætur. Það virðist ekki hafa unnist tími til þess þar sem þinglok bar brátt að. Það sést náttúrlega á frumvarpinu að hv. atvinnuveganefnd er látin flytja málið til að það fái hér hraðari málsmeðferð, en þegar nefndir flytja mál rétt fyrir þinglok í umboði ríkisstjórnar er oftast ekki gert ráð fyrir því að því sé vísað til nefndarinnar á milli 1. og 2. umr. Að minni ósk fór þetta mál aftur inn í atvinnuveganefnd. Ég hef talað við nefndarmenn þar og þeir segja að ekki hafi unnist tími til að fara í þær aðgerðir að færa verkefnið á réttan stað til að lagakerfi okkar virki og sambærileg mál séu hýst á réttum stöðum, í þessu tilfelli jarðgöng sem eiga að vera í innanríkisráðuneytinu, heyra undir Vegagerðina o.s.frv.

Virðulegi forseti. Ég varð að koma þessu á framfæri en ég beini því til allra aðila sem að málinu koma að þessu verkefni verði valinn staður því að svona lagað gengur ekki, að hægt sé að taka framkvæmdir undan þeim ráðuneytum sem eiga að fóstra málið og setja undir eitthvert ráðuneyti bara eftir því hvaða persóna situr í viðkomandi ráðherrastól. Eins og ég hef sagt tala ég mjög fyrir lagabótum og ábyrgum ríkisrekstri.

Mig langar að lesa aðeins upp úr nefndaráliti minni hlutans sem hv. þm. Eldar Ástþórsson skilaði inn í þetta mál, með leyfi forseta:

„Upphaflega var lögfest 1.800 millj. kr. framlag til að gera vegtengingu milli Húsavíkurhafnar og iðnaðarsvæðisins á Bakka miðað við verðlag ársins 2012. Nú er ráðgert að verkefnið kosti 3.100 millj. kr. Því er ljóst að ekki var vandað nægilega vel til undirbúnings í upphafi. Jafnframt er engin trygging fyrir því að framkvæmdirnar verði ekki enn kostnaðarsamari með tilheyrandi byrði á fjárhag ríkisins. Með því að fella fjárhæðina brott úr lögunum, líkt og meiri hlutinn hefur lagt til, er framkvæmdarvaldinu ekki veitt nægilegt aðhald. Það er sérstaklega ámælisvert þegar reikningurinn fyrir umframkostnaði sem þessum er sendur skattgreiðendum landsins.“

Ég ætla að gera þessi orð að mínum í þessu máli, því að í upphafi skal endinn skoða. Það verða að vera raunhæfar kostnaðaráætlanir við öll verkefni sem ríkið fer í og ekki endalaust hægt að sækja í vasa skattgreiðenda fyrir verkefnum, þó að þau séu mjög brýn eins og þetta verkefni, því að ég styð atvinnuuppbyggingu. Svo ætla ég líka að taka undir orð hv. þm. Jóns Gunnarssonar að í þessu máli sést hræsni Vinstri grænna og Samfylkingar varðandi orkufrekan iðnað og rammaáætlun, því að mikið þjóðþrifamál var stoppað í þinginu, ramminn, þar sem gerð var tillaga um að farið yrði t.d. í nýtingu í Þjórsá en þessir sömu flokkar stoppuðu það mál og meiri hlutinn kom því ekki í gegn vegna þingsamkomulags. En sums staðar má byggja upp orkufrekan iðnað, sums staðar má byggja upp stóriðju en augljóslega er ekki sama hvaða kjördæmi á að njóta þeirra ávaxta og þeirra hagrænu áhrifa sem slík uppbygging hefur í för með sér.