144. löggjafarþing — 144. fundur,  2. júlí 2015.

uppbygging innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka.

800. mál
[12:54]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Takk fyrir og bless. Ég er ekki í hópi með Jóni Gunnarssyni þegar kemur að afstöðu til stóriðjustefnu og hv. þingmanni verður ekki kápan úr því klæðinu, þótt ég hafi fært góð rök fyrir því að styðja þessa framkvæmd og sé stoltur af henni, að þar með sé ég orðinn honum sammála um alla stóriðju alls staðar undir hvaða formerkjum sem er. Það er ekki þannig, það er langur vegur frá því.

En þegar þetta mál á í hlut, þá lágu hlutir þannig að Þeistareykir voru þegar í nýtingarflokki, að á Þeistareykjum var þegar búið að bora og það var þar af leiðandi orðið vatn undir brúna að deila um það hvort þar ætti að virkja eða ekki. Það var löngu ákveðið og útgefin öll leyfi, rannsóknir farnar af stað, búið að leggja vegi, bora nokkrar holur o.s.frv. þannig að menn horfðust að sjálfsögðu í augu við það.

Stuðningur við það er ekki ávísun á að maður komi til með að styðja það að Bjarnarflag verði virkjað. Sem betur fer er það núna í endurmati og ný sveitarstjórn í Skútustaðahreppi hefur einmitt sérstaklega lagt á það áherslu að þar þurfi að fara mjög varlega, Landsvirkjun hefur viðurkennt það og fallist á að endurskoða fyrri áform um virkjun í Bjarnarflagi vegna nálægðar við byggð og vatn og var reyndar þegar búin að ákveða að fara þá ekki nema í hálfa virkjun ef hún færi yfir höfuð af stað, þannig að áherslunum var breytt og ákveðið að byrja á Þeistareykjum. Mjög góð niðurstaða í því máli. Og til að fara aðeins lengra, þá er stuðningur minn við þetta og frekari uppbyggingu á Bakka fyrir lítil og meðalstór og helst sem umhverfisvænust fyrirtæki ekki ávísun á það að ég ætli einhvern tíma á meðan ég dreg andann að styðja virkjun í Skjálfandafljóti og láta Aldeyjarfoss hverfa. Það er ekki svo, hv. þm. Jón Gunnarsson.