144. löggjafarþing — 144. fundur,  2. júlí 2015.

uppbygging innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka.

800. mál
[12:56]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú kannast ég aftur við tóninn. Nú var vindhaninn kominn af stað. Nú var farið að blása úr annarri átt og vindhaninn tók allt aðra stefnu. Hann er ekkert sammála um það að byggja eigi upp orkufrekan iðnað á Grundartanga, í Helguvík eða annars staðar á landinu til styrktar þeim byggðum sem þar eru, nei, þetta á bara við Húsavík. Þar má setja upp verksmiðju sem framleiðir það sem átta sinnum meiri mengun fylgir framleiðslu á tonn en á öðrum stöðum. Hann svaraði ekki spurningum mínum um hin verkefnin. Hann gaf það eiginlega í skyn að hann styddi þau bara alls ekki. Þarna kristallast tvískinnungurinn sem er í málflutningi hv. þingmanns.

Hann fór hér alveg offari um daginn þegar ég spurði í sakleysi mínu hvort það gæti verið þannig að kjördæmið skipti máli í þessu. Ég geri ekkert lítið úr því þó að þingmenn séu mjög áfram um framfarir í sínum kjördæmum. Það er bara í hæsta máta eðlilegt að menn séu það. En það verður ákveðið jafnræði að vera ef þingmanninum er einhver meining í því sem hann sagði í fyrri ræðu sinni, að landsbyggðina eigi að styrkja með uppbyggingu á orkufrekum iðnaði. Orkufrekur iðnaður spannar stórt svið og fjölbreytt. Gagnaverin eru eitt af því til dæmis, mjög áhugavert. En allt á það sammerkt að framleiða þarf orku. Meira að segja ef við ætlum að auka rafbílavæðingu í landinu, sem ég tel að við séum sammála um flest hér, þá mun það krefjast mikillar orku. Tvískinnungurinn blasir við okkur. Það er ekki sama hvar þetta er, það er ekki sama um hvað er að ræða.

Flutt var hástemmd ræða um Bakka og Húsavík og gert lítið úr málflutningi okkar hinna og gefið í skyn að við værum eitthvað á móti því, við höfum stutt það mál alla leið og munum gera það. Ég vonast til þess að koma muni enn frekari verkefni, stærri og fjölbreyttari, í Þingeyjarsýslum (Forseti hringir.) tengd orkuframleiðslunni. Ég vona það svo innilega. Innviðirnir verða til staðar til að taka við þeim og við höfum stutt það þrátt fyrir að það kosti eitthvað meira. Og það er þannig oft og tíðum að við þurfum jafnvel að horfa til þess úti um hinar dreifðu byggðir að það kostar okkur aðeins meira í ívilnunum ef okkur er full alvara, að nýta það verkfæri til að snúa við þeirri byggðaþróun sem við höfum búið við undanfarin ár.