144. löggjafarþing — 144. fundur,  2. júlí 2015.

uppbygging innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka.

800. mál
[13:00]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að við förum að samþykkja þetta frumvarp hér á Alþingi, það eru virkilega góð tíðindi. Þetta eru góð tíðindi fyrir Húsvíkinga, þetta eru góð tíðindi fyrir íbúa Þingeyjarsýslna, þetta eru góð tíðindi fyrir íbúa Eyjafjarðarsvæðisins, þetta eru góð tíðindi fyrir íbúa Norðurlands og landsins alls, þetta eru góð tíðindi. Og breið samstaða hefur verið um þetta verkefni.

Mig langar þó að rekja ferlið í stuttu máli. Ég tel að við hefðum getað verið farin af stað þó nokkru fyrr. Það er einfaldlega þannig að þetta verkefni eitt og sér hjálpar það mikið við hagvöxt alls landsins að allir þeir sem búa á Íslandi eiga að hafa það betra og það er akkúrat það sem við viljum gera. Við viljum nota okkar umhverfisvænu orku til að byggja upp atvinnutækifæri, byggja upp vinnu, til að reyna með einhverjum hætti að minnka brottflutning eða atvinnuleysi á köldum svæðum og þetta glæsilega verkefni er hluti af því.

Ég verð líka að minnast á Vaðlaheiðargöng. Vaðlaheiðargöng hafa alla tíð verið hluti af þessu verkefni, að tengja saman Eyjafjörð og Þingeyjarsýslur þannig að þetta verði allt saman eitt atvinnusvæði. Þær framkvæmdir hafa nú heldur betur verið gagnrýndar en þegar menn verða búnir að sameina sjúkrahúsin undir Heilbrigðisstofnun Norðurlands og þegar þessi uppbygging fer af stað, þá sjá menn hversu gríðarlega mikill ávinningur verður af Vaðlaheiðargöngum. Við erum að tala um að svæðið sem hefur verið kalt í atvinnulegu tilliti ætti að braggast til muna.

Ég verð þó aðeins að bregðast við nokkrum atriðum úr ræðu félaga míns úr Norðausturkjördæmi, hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar. Ég verð að viðurkenna að mér hefði fundist mátt vera aðeins bjartara yfir honum hér í ræðustól þegar hann ræddi um jafn jákvæða og góða framkvæmd. Mér fannst hann svona fullgramur á tímum, en hann sagði undir lokin að hann væri mjög jákvæður og þetta væri allt saman í rétta átt, og hafði ég nú hlustað vel. En hann má alveg eiga það eins og aðrir að hann lagði sitt af mörkum og það myndaðist breið samstaða stjórnar og stjórnarandstöðu undir lok síðasta kjörtímabils að farið yrði í þessa samninga. Þetta voru góðir samningar, góðir fyrir samfélagið og þeir sem stóðu að því eiga allan heiður skilið. Mig langar núna til að hrósa sérstaklega bæjarstjórninni á Húsavík, núverandi og fyrrverandi. Það sem gerðist var í rauninni það að menn fóru hægt af stað. Menn byrjuðu á réttum enda og lögðu grunninn. Ýmsir steinar voru í veginum en menn létu það ekki á sig fá. Samstaða Þingeyinga, Eyfirðinga og fleiri aðila hefur gert það að verkum að verkefnið er að verða að veruleika. Það eru margir sem eiga mikið en mig langar sérstaklega að nefna fyrrverandi bæjarfulltrúa Húsvíkinga, Gunnlaug Stefánsson, sem ég held að öðrum fremur og kannski að öðrum ólöstuðum hafi átt mikinn þátt í því hversu skynsamlega var haldið á þessu verki. Hann gerði sér far um að kalla til aðila úr öðrum stjórnmálaflokkum og þrátt fyrir mikinn og góðan kosningasigur í þarsíðustu sveitarstjórnarkosningum vildi hann frekar hafa fleiri um borð í staðinn fyrir að ráða málum. Ég held að það hafi verið skynsamlegt og ég held líka að það hafi verið í þeim samvinnuanda sem framsóknarmenn og fleiri vilja stuðla að.

Ég verð þó að minnast á eitt atvik sem ég held því miður að hafi tafið verkefnið, en það var ákveðið hér, að mig minnir á árinu 2008, varðandi verkefnið að hér yrðu unnin einstök möt, en þá var síðan ákveðið að fara í svokallað sameiginlegt umhverfismat. Sveitarstjórnir og fleiri bentu á að það mundi væntanlega tefja verkefnið og því miður varð það raunin. Ég held að þau tvö ár sem voru nefnd hafi því miður ræst. Ég held líka að ágætt sé að halda því til haga að í skýrslu um ríkisbúskapinn frá árinu 2009–2013 var ætíð gert ráð fyrir að þessi framkvæmd gæti farið af stað. Og þessi 0,5% hagvöxtur sem mun væntanlega skila sér út í samfélagið er eitthvað sem við hefðum getað séð fyrr og þessi 0,5% hagvöxtur er ígildi margra milljarða í tekjur fyrir ríkissjóð. Það hefði verið hægt að setja þá fjármuni fyrr í heilbrigðiskerfið, í menntakerfið, í samgöngubætur. En því miður hafa ýmis ljón verið í veginum.

Hér var nefnt að einhvern tíma hefðu menn stefnt að því að fara í álver. Ég studdi heimamenn í þeirri viðleitni. Ég studdi það vegna þess að þá var ekki verið að tala um 120 manna vinnustað heldur var verið að tala um töluvert meira, mig minnir um 300 manna vinnustað, og mengunin, hlutfallslega af þeirri framkvæmd, var mun minni en í dag og það er ágætt að halda því til haga. Menn bentu líka á að tækninni hefði fleygt það mikið fram að hún hefði jafnvel getað orðið enn þá meiri.

Ég óttaðist ekki þensluna á svæðinu. Ég held að heimamenn hafi unnið mjög skynsamlega, alveg eins og þeir hafa unnið í þessu verkefni allan tímann. Þeir hefðu ekki ætt af stað í stórframkvæmdir, byggingar og annað. Ég held að þeir hefðu aldrei hugsað það þannig að ráðlegt væri að byggja einhverjar stórar blokkir sem mundu hugsanlega standa auðar að framkvæmdatíma loknum.

Hér hefur aðeins verið minnst á Bjarnarflag og Þeistareyki. Ég held að það sé rétt að aðeins hafi verið hinkrað með Bjarnarflag. Ég held að menn geri sér kannski ekki almennt grein fyrir því en þeir sem fara í gegnum Reykjahlíðina í Skútustaðahreppi við Mývatn sjá að þar er lítil virkjun, mig minnir um tvö megavött, þ.e. Bjarnarflagsvirkjun. Í rauninni er verið að tala um virkjun á þegar röskuðu svæði en að sjálfsögðu eftir ábendingar um niðurdælingu vatns og það hversu nálægt þetta er byggð þá finnst mér Landsvirkjun hafa staðið mjög skynsamlega að þeim málum.

Það kom mér reyndar verulega á óvart að menn skyldu vera jafn áfjáðir í að fara í Þeistareykjavirkjun vegna þess að ég hélt að út frá umhverfissjónarmiðum og fagurfræðilegum sjónarmiðum — Þeistareykjavirkjun er á ofsalega fallegu svæði þar sem var gönguskáli — mundu menn kannski vilja skoða það, þ.e. að þeir sem hafa barist gegn þessu skyldu hafa meira um það að segja, en skynsemin varð ofan á og Þeistareykjavirkjun er stór hluti af því að þetta verður að veruleika.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon minntist á Skjálfandafljót og að það hefði þurft að virkja Skjálfandafljót til að koma álveri af stað. Ég hafna því alfarið. Það hefur aldrei nokkurn tíma verið minnst á það í þessari framkvæmd að það ætti að fara að virkja Skjálfandafljót og ef það hefur verið gert, þá hefur það verið langt fyrir minn tíma. Það kemur ekki til greina að virkja Skjálfandafljót, kemur ekki til greina. Ég veit að þær hugmyndir koma væntanlega fram í einhverri skýrslu. Annar hv. þingmaður benti mér á að skýrsla hefði verið gerð árið 1994 af hv. fyrrverandi þingmanni, Sighvati Björgvinssyni, og þar hafi kannski verið galnar hugmyndir, hvort væri jafnvel hægt að skrúfa frá Dettifossi og virkja hann, sem er líka algerlega útilokað í mínum huga. En svo fóru menn að tala um þetta „eitthvað annað“ og á sínum tíma þegar menn voru spurðir út í það, þá var því stundum fleygt fram að einhver þingmaður hefði nefnt að það væri til dæmis hægt að opna bakarí á Egilsstöðum, ég held að það hafi nú kannski verið ósanngjörn umræða. En líka var bent á að hægt væri að styrkja lögregluna og heilbrigðisþjónustuna og síðasta ríkisstjórn lagði af stað með mikil áform um að skera niður um 40% í heilbrigðisþjónustunni og sameina lögregluembætti, sem reyndar hefur náðst samstaða um í dag. En gegn því var barist, gegn því var heldur betur barist í tíð síðustu ríkisstjórnar og við í Framsóknarflokknum lögðumst hart gegn því og ég held að okkur hafi tekist vel upp að minnka þann niðurskurð um allt að helming. Ég held að það skipti gríðarlega miklu máli. Ég held að þegar menn nefndu að hægt væri að fjölga hafi ekki hvarflað að nokkrum manni að hinn sami maður og nefndi það sem þetta „eitthvað annað“ skyldi svo fara í að skera það niður.

Þá er bent á ferðaþjónustuna. Og skyldum við þá kannski ekki gefa krónunni það kredit að hún á einhvern þátt í því að hér hefur ferðamönnum stórfjölgað? Okkur tókst sem betur fer í hruninu að lækka gjaldmiðilinn okkar. Með því tókst okkur að koma í veg fyrir stórfellt atvinnuleysi, guðsblessun að við vorum ekki með evruna þá, og okkur tókst líka, þótt þröngt hafi verið í búi, að gera það að verkum að ferðamenn vildu einmitt koma. Og ætli Eyjafjallajökull hafi ekki hjálpað okkur töluvert? Eftir á að hyggja var það gos kannski einhver besta auglýsing sem Íslendingar gátu fengið og við náðum að benda á að hér væri fallegt landslag, gott að koma og ódýrt af því að hægt var að fella gengi gjaldmiðilsins.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra. Ég vil segja það að lokum að hér hefur verið aðeins imprað á því að jarðgöngin eigi heima á samgönguáætlun. Um þetta hefur verið deilt og við svo sem samþykktum það fyrir okkar leyti að framkvæmdin yrði þar inni við svo búið, en ég held samt að það ætti að endurskoða það. Þetta er ekki samgöngumannvirki í þeim skilningi að það sé ætlað fyrir almenning. Þetta er fyrir iðnaðinn fyrst og fremst, þetta er iðnaðarframkvæmd. Það eru skilyrði í samgönguáætlun fyrir því að þær framkvæmdir sem þar eru séu hugsaðar fyrir almenning, séu hugsaðar fyrir allt fólk eins og það leggur sig. Ég sé í áliti meiri hlutans að aðeins er velt vöngum yfir því hvar þetta eigi heima. Við settum þetta í samgönguáætlun en hún verður væntanlega endurskoðuð í haust og þá held ég að við þurfum að taka alvarlega umræðu um hvort ekki sé rétt að þessi framkvæmd eigi heima í iðnaðarráðuneytinu. Það eru sérstök lög um framkvæmdina og hennar verður svo getið sérstaklega á fjárlögum, en allar aðrar samgöngubætur eigi þá heima á samgönguáætlun.

En að lokum. Til hamingju Þingeyingar, Húsvíkingar, Eyfirðingar, Norðlendingar og allir Íslendingar með þessa góðu framkvæmd. Hún mun skila hagvexti. Hún mun koma í veg fyrir brottflutning og atvinnuleysi fólks á köldu svæði. Það er gott mannlíf, gott að koma á Húsavík og þegar framkvæmdirnar fara af stað munum við væntanlega sjá enn betra samfélag þar sem atvinnuöryggi á að vera tryggara.