144. löggjafarþing — 144. fundur,  2. júlí 2015.

uppbygging innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka.

800. mál
[13:25]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mikið en vil koma á framfæri nokkrum punktum í þessu máli. Eins og hefur komið fram er minni hlutinn eða fulltrúi Bjartrar framtíðar með sérálit í þessu máli og gagnrýnir undirbúning. Það var þannig að á sínum tíma sátu þingmenn Bjartrar framtíðar hjá í þessu máli. Þeir greiddu ekki atkvæði með því en voru ekki á móti því og það var með þeim rökum að kannski væri undirbúningi ábótavant eða það vantaði frekari gögn. Nú var það auðvitað þannig að verið var að hanna meðal annars göng og meira fyrir þetta iðnaðarsvæði án þess kannski að það lægi fyrir hvort fyrirtækið mundi raunverulega koma. Ég hef því vissan skilning á því að þetta hafi verið aðeins laust í reipunum, að menn hafi ekki farið að setja 100 milljónir í ítarlegar rannsóknir. Það má líka segja að það að setja einhverja ákveðna tölu í frumvarpið hafi verið mistök en mér finnst samt rétt að reyna með einhverjum hætti að meta kostnaðinn við svona framkvæmdir og ívilnanir. Kannski er rétt að taka fram í leiðinni að fulltrúar Bjartrar framtíðar greiddu atkvæði með Vaðlaheiðargöngunum, sem einhverra hluta vegna eru gríðarlega umdeild þótt það verði auðvitað notendur ganganna, þeir sem búa á þessu svæði, sem greiða þau upp. Í versta fellur eitthvað smotterí á ríkið en ríkið verður þá búið að eignast mjög mikilvæg jarðgöng fyrir svo að segja engan pening. Ég skil því ekki alveg hversu umdeild þessi göng eru.

Það er líka rétt að minna á það að örugglega öll stóriðja eða orkufrekur iðnaður, fyrirtæki í þessum bransa á Íslandi, hafa fengið ívilnun á einhvern hátt, hvort sem það hefur verið með sérsamningum eða ívilnunum eins og á Bakka, og langflest þessara fyrirtækja eru í kringum höfuðborgarsvæðið. Mér finnst það svolítið þreytandi að um leið og á að gera eitthvað úti á landi verður einhvern veginn allt vitlaust. Ég styð þetta mál, ég hefði gjarnan viljað að kostnaður hefði legið betur fyrir og að farið hefði verið í ítarlegri greiningu á þessum göngum, þ.e. hönnun er of dýr en það getur verið réttlætanlegt að setja peninga í hönnun til að fá skýrari mynd af því hvað hlutirnir kosta.

Ég vil að endingu segja frá því að ég fór til Hirtshals um daginn og fór þar í eitt stærsta sædýrasafn í Evrópu þar sem er eitt stærsta fiskabúr í Evrópu. Ég hugsaði með mér að það væri stórmerkilegt að vera með svona flott safn í þessum litla bæ svo fjarri höfuðborginni. Stemningin hér er að allt það merkilegasta verður að vera þar sem flestir eru og þetta mundi líklega aldrei vera gert á Íslandi. Við getum ekki einu sinni komið okkur saman um það að beinagrindin sem fannst, að ég held af steypireyði, verði sett upp í hvalasafninu á Húsavík, af því að auðvitað á hún að vera í Reykjavík. Ég komst svo að því að þetta sædýrasafn hefði fengið stuðning Evrópusambandsins og þar kom byggðastefna Evrópusambandsins til sögunnar. Ég velti því stundum fyrir mér af hverju landsbyggðin er alveg sérstaklega mikið á móti Evrópusambandinu vegna þess að mér finnst byggðastefna Evrópusambandsins mun betri en sú byggðastefna sem okkur hefur hlotnast að móta á Íslandi.

Ég styð málið sem sagt. Það verður ekki aftur snúið núna og ég vona að þetta verði til heilla fyrir svæðið. Það vita þeir sem fylgst hafa með að Húsvíkingar hafa reynt ýmislegt í gegnum árin, framleiddu m.a. stórfallegt plankaparkett á tímabili. Það var því miður aðeins áður en plankaparkett komst í tísku. Ég hafði augastað á slíku parketti en því miður var þeirri framleiðslu hætt áður en ég hafði kost á að kaupa það. En þeir eiga skilið að þarna verði flott uppbygging og þetta eykur fjölbreytni í atvinnulífi á svæðinu. Ég krossa því fingur og vona að þetta verði allt hið besta mál.