144. löggjafarþing — 144. fundur,  2. júlí 2015.

stjórn fiskveiða.

814. mál
[14:35]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Ásmundur Friðriksson) (S):

Virðulegi forseti. Við flytjum frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

Þetta frumvarp er lagt fram þar sem svokallað makrílfrumarp var dregið til baka og ég í fjarveru formanns nefndarinnar, sem ætlaði að flytja þetta en er á fundi, ætla að lesa þá greinargerð sem fylgir með þessu frumvarpi:

„Með frumvarpi þessu er lagt til að lögfest verði ákvæði sem heimili að því aflamagni sem dregið er frá heildarafla í hverri tegund fyrir úthlutun aflamarks, skv. 3. og 5. mgr. 8. gr. laganna, verði skilað í tilteknum tegundum bolfisks, samkvæmt sérstakri tilgreiningu eigenda veiðiskipa. Um skiptaverðmæti skal byggt á þorskígildum. Sams konar ákvæði og tillagan hefur að geyma var í eldri lögum en féll niður við setningu laga nr. 70/2011, um breytingu á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða.

Lögð er til breyting á 9. gr. laganna í þá veru að veita Fiskistofu heimild til að færa viðmiðun aflareynslu milli fiskiskipa að hluta eða öllu leyti þegar skipastóll er endurnýjaður. Með orðalaginu „breyting á skipastól“ er meðal annars átt við það þegar skip eru seld innan lands og einnig þegar útgerð fækkar skipum og sameinar þannig veiðireynslu og veiðiheimildir tveggja eða fleiri skipa.

Lagðar eru til breytingar á tveimur ákvæðum til bráðabirgða í lögunum.

Annars vegar er lagt til að framlengd verði um eitt ár undanþága frá hámarksaflahlutdeildarreglu fyrir báta með leyfi til veiða með krókaaflahlutdeild í ákvæði til bráðabirgða V. Hins vegar eru lagðar til breytingar á ákvæði til bráðabirgða VIII. Lagt er til að heimild ráðherra til að ráðstafa síld, þ.e. sumargotssíld og norsk-íslenskri síld, gegn greiðslu endurgjalds verði framlengd til næsta fiskveiðiárs. Jafnframt er lagt til að ráðherra fái heimild til að ráðstafa 2.000 lestum af makríl til smábáta. Þá er lagt til að verð þeirra aflaheimilda sem falla undir 1. mgr. ákvæðisins lækki úr 16 kr. í 8 kr.“