144. löggjafarþing — 144. fundur,  2. júlí 2015.

samstarf við Færeyjar og Grænland um leiðir til að draga úr útblæstri brennisteins frá skipum.

479. mál
[14:52]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Vilhjálmi Bjarnasyni fyrir skörulega og greinargóða framsögu um ákaflega flókið efni. Ég hef alltaf stutt með ráðum og dáð samstarf vestnorrænu þjóðanna. Ég held að það eigi að ýta undir það með öllum þeim hætti sem við getum. Það kom eigi að síður fram hjá hv. þingmanni að ég rita undir þetta nefndarálit með fyrirvara. Ástæðan er sú að ég er þeirrar skoðunar að ekki sé sjálfgefið að allar þær tillögur sem berast okkur úr hinum vestnoræna samstarfsvettvangi hingað til þingsins eigi að samþykkjast.

Í sumum tilvikum hefur mér þótt sem þau mál sem tillögurnar lúta að séu þegar í framkvæmd komnar. Í þessu tilviki á ég nokkuð erfitt með að sjá að þetta skipti einu eða neinu fyrir hið íslenska samfélag. Ástæðan er sú, eins og mér fannst hv. þingmaður rekja, að við höfum innleitt hér þær gerðir og tilskipanir sem Evrópusambandið fer eftir í þessum efnum. En ég get hins vegar algerlega fallist á það til að vera í takt við hinar vestnorrænu þjóðirnar tvær, að við leggjum þetta líka inn til okkar þings og ýtum undir áhersluna sem gefin er þessu máli með því að samþykkja þetta líka hér. Það kann vel að vera og er líklegt að með því sé málinu gefið aukið vægi hjá þeim, en ég tel að það sem óskað er eftir í þessari tillögu sé meira og minna allt til framkvæmda komið hér á landi.

Það breytir engu um það að ég skrifaði undir nefndarálitið og mun styðja tillöguna og líka breytingartillöguna.