144. löggjafarþing — 144. fundur,  2. júlí 2015.

samstarf við Færeyjar og Grænland um leiðir til að draga úr útblæstri brennisteins frá skipum.

479. mál
[14:55]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Vilhjálmur Bjarnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel mig knúinn til að svara hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni í þessu máli. Það er vissulega rétt að Ísland hefur þegar innleitt tilskipun og hrint í framkvæmd kröfum um lækkað brennisteinsinnihald, en Ísland er á ákveðnu svæði í Norður-Atlantshafi þar sem þessi lönd eru næstu nágrannar og það skiptir okkur máli hvað þessi lönd gera vegna þess að útblástur er því miður ekki staðbundinn. Útblástur kann að dreifast í umhverfi okkar. Þessi lönd hafa óskað eftir samstarfi í Vestnorræna ráðinu og ég tel að okkur beri skylda til að styðja þessi lönd með þeim hætti sem við getum og í þessum efnum tel ég að um sameiginlegan ábata sé að ræða fyrir þau lönd sem þarna eru. Ef við teljum á annað borð að of hátt brennissteinsinnihald í útblæstri sé skaðlegt umhverfi þá er það jafn skaðlegt hjá næstu nágrönnum og það er hjá okkur. Því vil ég halda til haga.

Ég hef lokið máli mínu.