144. löggjafarþing — 144. fundur,  2. júlí 2015.

heimild fulltrúa Vestnorræna ráðsins til að senda fyrirspurnir til ráðherra.

480. mál
[14:56]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Óttarr Proppé) (Bf):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti utanríkismálanefndar um tillögu til þingsályktunar um að heimila fulltrúum Vestnorræna ráðsins að senda fyrirspurnir til ráðherra.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Unni Brá Konráðsdóttur, formann Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins, Ingu Dóru Markussen, framkvæmdastjóra Vestnorræna ráðsins, og Elínu Flygenring frá utanríkisráðuneyti. Þá óskaði utanríkismálanefnd álits forsætisnefndar og forsætisnefnd fól lagaskrifstofu Alþingis að kanna lagalegan þátt málsins og koma þeirri niðurstöðu á framfæri við utanríkismálanefnd. Nefndinni barst minnisblað frá lagaskrifstofu Alþingis sem fylgir með nefndarálitinu sem fylgiskjal.

Með tillögunni er lagt til að Alþingi skori á ríkisstjórnina að heimila fulltrúum Vestnorræna ráðsins að senda fyrirspurnir til ráðherra í tengslum við vinnu ráðsins eða um málefni sem snerta vestnorræna samvinnu. Fyrirspurnir verði sendar á skrifstofu Vestnorræna ráðsins sem sendi þær áfram til viðeigandi ráðherra. Ráðherrann svari fyrirspurn fulltrúa í síðasta lagi átta vikum eftir að hafa fengið hana í hendur. Fram kemur í greinargerð með tillögunni að hún byggist á ályktun nr. 1/2014 sem samþykkt var á ársfundi Vestnorræna ráðsins 3. september 2014 í Vestmannaeyjum en þar er áskorun þessa efnis beint til ríkisstjórnar Íslands og landsstjórna Færeyja og Grænlands. Með tillögunni vill Vestnorræna ráðið efla samstarfið milli vestnorrænu landanna með því að veita kjörnum fulltrúum ráðsins möguleika á að leggja fram fyrirspurnir til stjórna landanna þriggja og gefa fulltrúunum þar með betri möguleika á að fylgjast með eða beina athygli að þeirri vinnu stjórnanna sem snýr að vestnorrænum málefnum eða samstarfi. Vísað er til þess að á vettvangi Norðurlandaráðs geta kjörnir fulltrúar ráðsins lagt fram fyrirspurnir til ríkisstjórna aðildarlandanna samkvæmt 57. gr. Helsingforssamningsins og að eðlilegt sé að fulltrúar í Vestnorræna ráðinu hafi sama rétt gagnvart stjórnvöldum í vestnorrænu löndunum.

Nefndin telur eðlilegt og æskilegt að fulltrúum Vestnorræna ráðsins gefist kostur á að senda fyrirspurnir til stjórnvalda vestnorrænu landanna. Ekki er starfandi vestnorræn ráðherranefnd eins og norræna ráðherranefndin, en engu að síður væri æskilegt að formbinda fyrirkomulag þeirra fyrirspurna sem lagðar eru til í tillögunni. Í minnisblaði lagaskrifstofu Alþingis kemur fram að slíkt verði ekki gert með breytingu á stofnsamningi Vestnorræna ráðsins enda sé hann samstarfssamningur þriggja þjóðþinga um þingmannasamstarf en ekki þjóðréttarsamningur eins og Helsingforssamningurinn. Grunnur samvinnu Vestnorræna ráðsins og stjórnvalda á Vestur-Norðurlöndum er samstarfsyfirlýsing ríkisstjórnar Íslands, landsstjórnar Færeyja, landsstjórnar Grænlands og Vestnorræna ráðsins frá 15. apríl 2002. Ef til vill væri rétt að leggja til endurskoðun á samstarfsyfirlýsingunni þar sem settur yrði grundvöllur fyrir fulltrúa Vestnorræna ráðsins til þess að senda fyrirspurnir til ráðherra aðildarríkjanna í tengslum við vinnu ráðsins eða um málefni sem snerta vestnorræna samvinnu.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt.

Undir nefndarálitið skrifa þann 15. júní 2015 hv. þingmenn Birgir Ármannsson formaður, Óttarr Proppé framsögumaður, Anna María Elíasdóttir, Elín Hirst, Frosti Sigurjónsson, Katrín Jakobsdóttir, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Vilhjálmur Bjarnason og Össur Skarphéðinsson.

Auk þess kemur fram að hv. þm. Birgitta Jónsdóttir, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykk áliti þessu.

Ég hef lokið máli mínu.