144. löggjafarþing — 144. fundur,  2. júlí 2015.

uppbygging innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka.

800. mál
[15:32]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Eins og áður hefur komið fram af minni hálfu hef ég ekki á neinu stigi stutt þetta mál, gerði það ekki í tíð síðustu ríkisstjórnar þegar því var hleypt af stokkum og var ekki einn um þá afstöðu. Um er að ræða milljarða stuðning úr vösum skattgreiðenda til tiltekins stóriðjufyrirtækis við Bakka í Þingeyjarsýslu. Þessir milljarðar verða nú enn fleiri, það á enn að bæta í og andstaða mín gegn þessu máli eykst fyrir vikið. Þessir fjármunir voru samkvæmt síðasta fjárlagafrumvarpi settir undir samgöngumál, teknir af samgöngufé. Þetta á ekkert skylt við samgöngumál og hefur ekki verið á samgönguáætlun. Þetta er fjárstuðningur úr vösum skattgreiðenda við tiltekið stóriðjufyrirtæki. Ég er andvígur þessu máli og mun greiða atkvæði gegn því.