144. löggjafarþing — 144. fundur,  2. júlí 2015.

uppbygging innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka.

800. mál
[15:36]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Við sjálfstæðismenn höfum stutt þetta mál, uppbyggingu atvinnulífs í Þingeyjarsýslum. Þrátt fyrir að hér sé um að ræða ívilnanir sem eiga sér ekki fordæmi í sögu stóriðjuframkvæmda á Íslandi teljum við verkefnið réttlætanlegt í ljósi staðsetningar þess og þeirrar miklu eflingar sem það mun hafa á nærbyggð sína.

Ég hef áður í umræðunni vikið að því hversu mikill tvískinnungur er í málflutningi margra þingmanna Samfylkingarinnar og Vinstri grænna og jafnvel Pírata þegar kemur að þessu máli. Það verður mjög gaman að fylgjast með því hvernig hv. þingmenn þessara flokka greiða atkvæði, sérstaklega með tilliti til þess hvernig meðhöndlun rammaáætlun hefur fengið, sem er grunnurinn að því að byggja upp hér sunnan heiða. (Gripið fram í.) Það eru hv. þingmenn, til að mynda sessunautarnir hér, hv. þingmenn Svandís Svavarsdóttir og Árni Páll Árnason og fleiri, sem verður alveg sérstaklega gaman að fylgjast með hvernig munu haga atkvæðagreiðslu sinni.