144. löggjafarþing — 144. fundur,  2. júlí 2015.

uppbygging innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka.

800. mál
[15:38]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég studdi þetta mál ekki 2012 en gerði það 2013 og styð það líka núna. Það er mikill munur á. Þarna var á vegum síðustu ríkisstjórnar verið að gera ívilnunarsamning sem var gerður langt fram í tímann með fyrirvara um að hann tæki ekki gildi nema af framkvæmdum yrði. Nú er það orðið ljóst, sem betur að, að framkvæmdir eru hafnar á svæðinu.

Það er auðvitað bagalegt þegar þarf að bæta í vegna þess að kostnaðaráætlun hefur ekki staðist eða nýjar upplýsingar koma fram sem gera verkið dýrara. [Kliður í þingsal.] Þetta er uppbygging á landsbyggðinni. Það er verið að virkja orku á norðausturhorninu, sem var samþykkt í rammaáætlun í nýtingarflokk, og verið að nýta hana til atvinnuuppbyggingar á þessu svæði. Loksins — (Gripið fram í: Jón er bara að æsa …) Ef fólk úti í sal er hætt umræðu ætla ég að fá að klára.

(Forseti (ValG): Ég vil biðja hv. þingmenn að gefa ræðumanni orðið.)

Loksins er atvinnuuppbygging að hefjast annars staðar en hér á höfuðborgarsvæðinu. Það er gert með þessum ívilnunarsamningi, það er gert með þessari uppbyggingu og hún mun skila sér vel til atvinnuuppbyggingar á svæðinu. Ég segi já við þessari tillögu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)