144. löggjafarþing — 144. fundur,  2. júlí 2015.

uppbygging innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka.

800. mál
[15:40]
Horfa

Eldar Ástþórsson (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég ætla rétt að koma inn á nefndarálit minni hlutans sem ég stóð einn að í atvinnuveganefnd. Þar segir, með leyfi forseta:

„Minni hlutinn er ekki andsnúinn áframhaldandi uppbyggingu á Bakka en telur hins vegar ámælisvert að fella brott þá fjárhæð til verkefnisins sem upphaflega var samþykkt á Alþingi, enda glatast þar með nauðsynlegt aðhald í ríkisfjármálum.“

Við erum sem sagt að gagnrýna það að nú er verið að senda tékkann fyrir þessu til ríkisins og það er ekkert sem veitir því aðhald að það komi ekki bara annar tékki á næsta ári. Við getum þess vegna ekki stutt þetta mál.