144. löggjafarþing — 145. fundur,  2. júlí 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[16:39]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka svarið. Það er einmitt mjög mikilvæg viðbót að gert er ráð fyrir aðkomu nefndarinnar þegar farið verður yfir lokaniðurstöður eða nauðasamninga. Mér finnst mjög mikilvægt að árétta það á þessum tímapunkti. Það var gert í 1. umr. og ríkti einhugur um það í nefndinni að það yrði algerlega tryggt að þær leiðir sem er verið að hanna, sem munu leiða til mikils peningainnstreymis í ríkissjóð, eru ekki til tekjuöflunar. Markmiðið er að reyna að losa gjaldeyrishöft og gera það þannig að það hafi ekki áhrif á lífskjör og auki ekki greiðslujöfnunarvanda þjóðarbúsins. Það er markmiðið og það eru þau skilyrði sem nauðasamningarnir verða að uppfylla. Það er kannski vegna þess að líklegt er að misskilningur skapist í samfélaginu og fólk haldi að þetta séu peningar eins og hverjir aðrir peningar sem hægt væri að nota í hitt og þetta. Það er ekki einfalt að nota þessa peninga, eins og kom fram í umfjöllun nefndarinnar, til að greiða niður opinberar skuldir. Það væri það skynsamlegasta sem við gætum gert en það er ekki einföld aðgerð vegna þess að það gæti leitt til þess að peningarnir fari út í hagkerfið og leiði til þenslu. Allt þetta þarf að vinna mjög skynsamlega og til að geirnegla þennan sameiginlega skilning á eðli þessara peninga langar mig að spyrja hv. þingmann þeirrar leiðandi spurningar hvort það sé ekki alveg örugglega tryggt að allir flokkar á Alþingi líti svo á að lykilviðfangsefnið í þessu ferli öllu saman sé að koma í veg fyrir að þetta fé valdi þenslu og ójöfnuði í hagkerfinu.